Fjórfaldur ólympíumeistari í átta ára keppnisbann

Sun Yang er á leið í átta ára keppnisbann.
Sun Yang er á leið í átta ára keppnisbann. AFP

Sundkappinn Sun Yang frá Kína hefur verið dæmdur í átta ára keppnisbann en það er BBC sem greinir frá þessu. Yang er 28 ára gamall en hann er á meðal sigursælustu sundmanna samtímans. Hann hefur ellefu sinnum unnið til gullverðlauna á heimsmeistaramóti og þá hefur hann fjórum sinnum fagnað sigri á Ólympíuleikunum.

Yang skrópaði í lyfjapróf sem hann átti að mæta í í september árið 2018. Hann var í fyrstu sýknaður af öllum ákærum af Alþjóðasundsambandinu í janúar 2019. Wada, Alþjóðalyfjaeftirlitið, kærði hins vegar úrskurðinn til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS, sem dæmdi Yang í átta ára keppnisbann á dögunum.

Þetta er annað brot sundmannsins frá Kína og vegur það þungt í úrskurði Alþjóðaíþróttadómstólsins en hann var dæmdur í þriggja mánaða keppnisbann árið 2014 fyrir að taka inn ólögleg lyf. Yang sagðist hafa misst af prófinu þar sem þeir sem ætluðu að prófa hann á sínum tíma hefðu ekki verið með tilskilin skilríki.

Ástralinn Mack Horton vakti athygli á máli Sun Yang á HM í Suður-Kóreu síðasta sumar en hann endaði í öðru sæti í 200 metra skriðsundi á eftir Yang. Horton neitaði að deila verðlaunapalli með Yang og sakaði hann um svindl við lítinn fögnuð Kínverjans sem lét hann heyra það duglega á verðlaunaafhendingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert