Keppti 84 ára á borðtennismóti

Sigurður Herlufsen á öldungamótinu um síðustu helgi.
Sigurður Herlufsen á öldungamótinu um síðustu helgi. Ljósmynd/Stefán

„Ég byrjaði fertugur að spila en veit ekki númer hvað þetta mót er hjá mér,“ sagði hinn 84 ára Sigurður Herlufsen, sem keppti á Íslandsmóti öldunga í borðtennis um helgina.

Hann átti spila í flokki 80-85 ára en sá flokkur var sameinaður við flokk eldri en 70 ára en þess má geta að þrír í þessum flokki eru á níræðisaldri, Sigurður þeirra elstur en hann verður 85 ára í júní.

„Þetta byrjaði þannig að ég þekkti pabba hans Péturs Stephensens og hann stakk upp á að við settum upp borðtennisborð, sem við gerðum. Svo fæddist Pétur sonur hans og kom inn í þetta. Við erum enn að, færðum okkur síðan í Víking niður í Fossvogsskóla og höfum spilað síðan.“

Eftir þessi 45 ár í borðtennis má spyrja hvort þetta sé enn svona gaman. „Ég væri ekki í þessu ef svo væri ekki og verð eins lengi að og heilsan leyfir. Ég er reyndar alltaf að tapa en þetta er alltaf jafn gaman. Svo hefur maður gott af þessu og kemur manni í gang. Þegar maður lítur til baka hafa farið margar kynslóðir farið fram hjá mér, margir ungir sem eru enn að spila og sumir hættir. Ég var alltaf einn af þessum staurum sem þeir þurftu að vinna til að halda áfram,“ bætti Sigurður við hlæjandi.

Þrátt fyrir aldurinn, sem er víst afstæður, vantaði ekkert upp á keppnisskapið og ákafann í hverjum leik. Sigurður keppti í einliðaleik og hefði líka keppt í tvíliðaleik nema hvað meðspilari hans var veikur.

„Ég hef síðustu árin átt í erfiðleikum með uppgjafir, næ þeim ekki eins vel og áður svo ég tapa alltaf einhverjum stigum þannig og það dregur mann aðeins niður. Borðtennis er einstaklingsíþrótt, miklu betra en bridge þar sem maður hefur makker sem rífst og skammast, alltaf einhverjum um að kenna en í borðtennis og skák er það ekki hægt því þar veltur allt á manni sjálfum, einum og óstuddum. Ég á fullt af verðlaunapeningum en held að flesta hafi ég fengið fyrir að vera stillti prúði leikmaðurinn, en það er alveg eins gott,“ sagði Sigurður að lokum.

Anna Sigurbjörnsdóttir fór þrisvar á efsta þrep verðlaunapallsins.
Anna Sigurbjörnsdóttir fór þrisvar á efsta þrep verðlaunapallsins. Ljósmynd/Auður Tinna og Ársól Clara

Anna var sigursælust á mótinu

Anna Sigurbjörnsdóttir úr KR vann þrenn gullverðlaun á mótinu en Bjarni Þorgeir Bjarnason, HK, Ólafur H. Ólafsson, Erninum, og Örn Þórðarson, HK, unnu tvenn gullverðlaun hver.

Úrslit úr einstökum flokkum

Tvenndarkeppni 40 ára og eldri, fædd 1981 og fyrr

  • 1. Hannes Guðrúnarson/Anna Sigurbjörnsdóttir, KR
  • 2. Viliam Marciník/Guðrún Gestsdóttir, KR
  • 3. Bjarni Gunnarsson/Guðrún Ólafsdóttir, KR

Hannes og Anna unnu Viliam og Guðrúnu í hörkuleik 3-1 (11-8, 8-11, 11-9, 13-11) og hefur Hannes sigrað í tvenndarkeppni öll þrjú árin sem keppt hefur verið í henni á Íslandsmóti öldunga.

Tvíliðaleikur karla 40-49 ára, fæddir 1972-1981

  • 1. Reynir Georgsson/Örn Þórðarson, HK
  • 2. Jón Gunnarsson/Ladislav Haluska, BH/Víkingi
  • 3.-4. Guðmundur Örn Halldórsson/Viliam Marciník, KR
  • 3.-4. Helgi Þór Gunnarsson/Markus Meckl, Akri

Reynir og Örn voru öruggir sigurvegarar, töpuðu ekki lotu og unnu Jón og Ladislav 3-0 (11-7, 11-4, 11-4) í úrslitaleik. Þeir unnu líka síðast þegar keppt var í þessum aldursflokki, árið 2018.

Tvíliðaleikur kvenna 50-59 ára, fæddar 1962-1971

  • 1. Anna Sigurbjörnsdóttir/Elísabet D. Ólafsdóttir, KR
  • 2. Guðrún Gestsdóttir/Guðrún Ólafsdóttir, KR

Anna og Elísabet unnu 3-0 (11-7, 11-9, 11-8) en þær hafa báðar sigrað áður í þessum flokki. Anna varði titilinn sem hún vann síðast með Ástu Urbancic.

Tvíliðaleikur karla 50-69 ára, fæddir 1952-1971

  • 1. Bjarni Þorgeir Bjarnason/Kristján Aðalbjörn Jónasson, HK/Víkingi
  • 2. Guðmundur Ragnar Guðmundsson/Stefán Birkisson, Víkingi
  • 3.-4. Bjarni Gunnarsson/Hannes Guðrúnarson, KR
  • 3.-4. Pétur Ó. Stephensen/Sighvatur Karlsson, Víkingi

Þeir Pétur og Sighvatur voru eina skráða parið í flokki 60-69 ára og þess vegna var þeirra flokkur sameinaður 50-59 ára flokki, í samræmi við reglugerð um Íslandsmót.

Þeir Bjarni og Kristján hafa unnið marga titla saman í tvíliðaleik en þeir þurftu að taka á honum stóra sínum gegn Guðmundi og Stefáni og knúðu fram sigur í oddalotu eftir að hafa verið 1-2 undir í lotum. Leiknum lauk 3-2 (12-10, 5-11, 9-11, 11-6, 11-1).

Tvíliðaleikur karla 70 ára og eldri, fæddir 1951 og fyrr

  • 1. Jóhann Örn Sigurjónsson /Ólafur H. Ólafsson, Erninum
  • 2. Aðalsteinn Eiríksson/Jónas Marteinsson, Erninum/Víkingi

Þeir Jóhann og Ólafur unnu úrslitaleikinn í oddalotu 3-2 (12-14, 11-9, 8-11, 11-7, 11-4) eftir að hafa verið 1-2 undir eftir þrjár lotur. Þeir eiga báðir Íslandsmeistaratitla að baki í þessum flokki en hafa ekki áður sigrað saman.

Einliðaleikur karla 40-49 ára, fæddir 1972-1981

  • 1. Örn Þórðarson, HK
  • 2. Ladislav Haluska, Víkingi
  • 3. Viliam Marciník, KR
  • 4. Helgi Þór Gunnarsson, Akri

Örn vann sinn þriðja titil í þessum flokki og tapaði aðeins einni lotu. Hann lagði Ladislav örugglega 3-0 (11-7, 11-3, 11-4).

Einliðaleikur karla 50-59 ára, fæddir 1962-1971

  • 1. Bjarni Þorgeir Bjarnason, HK
  • 2. Kristján Aðalbjörn Jónasson, Víkingi
  • 3.-4. Reynir Georgsson, HK
  • 3.-4. Stefán Birkisson, Víkingi

Félagarnir Bjarni og Kristján sýndu frábæra takta í úrslitaleiknum í leik sem báðir áttu skilið að vinna. Bjarni reyndist sterkari á lokasprettinum og vann 3-2 (11-7, 11-4, 10-12, 7-11, 11-8), Kristján átti titil að verja og hefur unnið sjö titla í þessum flokki en Bjarni hafði áður unnið titla í 40-49 ára flokki.

Einliðaleikur kvenna 50-59 ára, fæddar 1962-1971

  • 1. Anna Sigurbjörnsdóttir, KR
  • 2. Guðrún Gestsdóttir, KR
  • 3. Guðrún Ólafsdóttir, KR

Anna lagði Guðrúnu 3-1 (11-6, 11-7, 9-11, 11-7) en þær æfa saman og þekkja hvor aðra því vel.

Einliðaleikur karla 60-69 ára, fæddir 1952-1961

  • 1. Guðmundur Örn Halldórsson, KR
  • 2. Pétur Ó. Stephensen, Víkingi
  • 3. Jón Gunnarsson, BH
  • 4. Sighvatur Karlsson, Víkingi

Guðmundur vann sinn fyrsta titil í öldungaflokki þegar hann lagði Pétur 3-0 (11-8, 11-8, 12-10). Guðmundur vann bæði Sighvat og Finn Jónsson í oddalotu, svo hann þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum.

Einliðaleikur karla 70 ára og eldri, fæddir 1951 og fyrr

  • 1. Ólafur H. Ólafsson, Erninum
  • 2. Jónas Marteinsson, Víkingi
  • 3. Jóhann Örn Sigurjónsson, Erninum
  • 4. Aðalsteinn Eiríksson,  Erninum

Ólafur var öruggur sigurvegari og tapaði ekki lotu. Hann lagði Jónas 3-0 (11-3, 11-3, 11-4). Ólafur hefur ekki keppt í nokkur ár en sigraði þegar hann keppti síðast á þessu móti, árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert