Formaður FH mótmælir fullyrðingu formanns Hauka

Viðar Halldórsson er formaður FH.
Viðar Halldórsson er formaður FH.

Viðar Halldórsson, formaður Fimleikafélags Hafnarfjarðar, hefur skrifað pistil á heimasíðu félagsins þar sem hann mótmælir ummælum Samúels Guðmundssonar, formanns Hauka, í 90 ára afmælisblaði Hauka en þar segir Samúel að Haukar séu í dag fjölmennasta íþróttafélagið í Hafnarfirði.

Viðar segir að þar vitni Samúel til mælingar þar sem fram komi að Haukar séu með fleiri iðkendur en FH. Þar sé hann að vísa til iðkendatölu í Felix-kerfi ÍSÍ.

Samúel Guðmundsson er formaður Hauka.
Samúel Guðmundsson er formaður Hauka.

Iðkendatölur í Felix eru tölur innsettar af félögunum sjálfum og alveg ljóst að fjöldi félaga ber enga virðingu fyrir því kerfi og sér sér hag í verulega ýktum iðkendatölum og það er ákkúrat það sem Haukar hafa stundað. „Mælingin“ sem Samúel vitnar í er ekkert annað en röng innsetning þeirra sjálfra á fjölda iðkenda,“ segir Viðar m.a. í pistlinum.

Þar leggur Viðar fram tölur frá Hafnarfjarðarbæ sem segir að FH sé með 1.702 iðkendur, Haukar 1.053 og Fimleikafélagið Björk 773 iðkendur en pistilinn í heild sinni má sjá hér.

mbl.is