„Æðislegt að kljúfa múr sem enginn annar hefur klofið“

Már Gunnarsson gerði sér lítið fyrir og setti heimsmet í …
Már Gunnarsson gerði sér lítið fyrir og setti heimsmet í 200 metra baksundi í gær.

Í gær setti sundmaðurinn Már Gunnarsson heimsmet í 200 metra baksundi á Íslandsmeistaramótinu í flokki blindra. Már er að vonum lukkulegur með árangurinn og hlakkar til komandi tíma.

Það er náttúrulega æðislegt að kljúfa múr sem enginn annar blindur einstaklingur hefur klofið. Það er bara æðislegt og þetta gefur góð fyrirheit um komandi tíma, komandi mót,“ segir Már í samtali við mbl.is.

Heimsmetið sem hann sló í gær var komið til ára sinna, tæplega 30 ára gamalt, en fyrra met átti Banda­ríkjamaður­inn John Morg­an sem hann setti í Barcelona árið 1992. Már synti 200 metrana á 2:32,31 mín­útu og bætti þar með met Morgan um 1,11 sekúndur.

Már hefur sömuleiðis sett nokkur Íslandsmet á Íslandsmeistaramótinu í gær og í dag, samtals fjögur.

„Ég sló tvö Íslandsmet þegar ég synti 200 metra baksundið tvisvar í gær, sló það í bæði skiptin. Í dag synti ég 50 metra baksund og setti Íslandsmet þar og svo synti ég 100 metra skriðsund og bætti Íslandsmetið þar líka. Það er bara skemmtilegt,“ segir hann.

Næst á dagskrá hjá Má er Evrópumótið í Madeira í Portúgal, sem hefst um miðjan maí. „Það er bara æðislegt, flottur staður og það verður gaman að komast loksins út og fá smá sól!“

Stefnir á Evrópumeistaratitil og að keppa á ÓL

Eins og hægt er að gefa sér miðað við nýslegið heimsmet hans kveðst Már sterkastur í baksundi.

„Því miður verður ekki 200 metra baksund á EM en aftur á móti væri gaman að ná Evrópumeistaratitli eða komast alla vega á verðlaunapall, það væri æðislegt. Ég á mestu möguleikana í 100 metra baksundi,“ segir Már og bætir við að hann muni keppa í nokkrum öðrum greinum ásamt baksundi á mótinu.

Frammistöðuna á Íslandsmeistaramótinu í dag og í gær segir Már enda leggja góðan grunn að mótinu í Madeira.

„Þetta er gott veganesti á EM og það er líka gaman að vera að uppskera þegar maður er að leggja mikið á sig. Svo eru Ólympíuleikarnir í ágúst, stefnan er sett þangað,“ segir hann að lokum í samtali við mbl.is.

Þess má einnig geta að Már er afar fær tónlistarmaður og gaf í byrjun mánaðarins út nýtt lag, Vinurinn vor, ásamt Ivu, og ræddi meðal annars lagið í viðtali hjá Helgarútgáfu K100 skömmu eftir útgáfu þess:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert