Spennandi viðureignir í Norðlingaholti

Ronja Halldórsdóttir fór með sigur af hólmi í flokki kvenna, …
Ronja Halldórsdóttir fór með sigur af hólmi í flokki kvenna, 14 ára og eldri. Ljósmynd/Ingólfur Snorrason

Fyrsta Adidas Special mótið í karate var haldið í Fylkisseli í Norðlingaholti nú um helgina en mótið var einskorðað við afrekshóp Karatesambands Íslands.

Keppt var í kumite (bardaga) í tveimur aldursflokkum karla; 14 til 15 ára, og 16 til 17 ára, en í kvennaflokki var keppt í opnum flokki 14 ára og eldri. 

Allir flokkar voru eftir „round robin“ kerfi, þar sem allir keppa við alla.  Einnig voru valin tilþrifaverðlaun í hverjum flokki, fyrir afgerandi tækni í bardaga.

Hugi Halldórsson vann öruggan sigur í eldri flokki.
Hugi Halldórsson vann öruggan sigur í eldri flokki. Ljósmynd/Ingólfur Snorrason

Davíð Steinn í sérflokki 14 til 15 ára drengja

Davíð Steinn Einarsson sýndi töluvert öryggi í yngri flokki drengja en hann stóð uppi sem sigurvegari, en Björn Halldórsson og Nökkvi Benediktsson urðu í öðru og þriðja sæti.  Davíð Steinn náði einnig í tilþrifaverðlaun dagsins með afgerandi hætti.

Ronja Halldórsdóttir með sigur eftir hreina úrslitarimmu við Ísabellu Ingólfsdóttur

Eftir 9 bardaga í opnum flokki kvenna, 14 ára og eldri, stóðu Ronja Halldórsdóttir og Ísabella Ingólfsdóttir einar með sigur í öllum viðureignum og því fór að þær öttu kappi til hreinna úrslita í spennandi viðureign.  Ronja stóð uppi sem sigurvegari, en athygli vakti að Ísabella var yngsti keppandi flokksins, 14 ára, og var að etja kappi við keppendur upp undir tvítugt.  Viktoría Ingólfsdóttir varð í þrigja sæti og fékk einnig tilþrifaverðlaun fyrir vel útfært spark í bardaga við Ísabellu, en þær stöllur eru systur.

Davíð Steinn Einarsso vann öruggan sigur.
Davíð Steinn Einarsso vann öruggan sigur. Ljósmynd/Ingólfur Snorrason

Hugi Halldórsson ósnertanlegur í eldri flokki drengja

Hún var sterk innkoman hjá Huga Halldórssyni í flokki 16 til 17 ára drengja en hann sigraði allar viðureignir sínar örugglega og stóð einnig uppi með tilþrifaverðlaun dagsins eftir vinnu sína í flokknum.  Hugi er að stimpla sig inn sem gríðarlega efnilegur keppandi og framtíðin björt sé vel haldið utan um hann.  Tvíburarnir Nökkvi og Andri Kristjánssynir voru einnig sprækir á mótinu, en þeir lentu í öðru og þriðja sæti.

Mikil áskorun

Það hefur verið töluverð áskorun að halda góðum dampi í íþróttinni í því ástandi sem hefur verið vegna Covid og var mótið sett til að tryggja afrekshóp landsliðsins viðureignir þar sem KAÍ hefur ekki haft kost á að senda keppendur erlendis í töluverðan tíma.  Það gæti vonandi horfið til betri vega með haustinu og því mikilvægt að halda afrekshópnum á tánum þar til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert