Evrópusigur Akureyringa eftir bráðabana

Jóhann Leifsson skoraði tvö mörk fyrir Akureyringa í dag.
Jóhann Leifsson skoraði tvö mörk fyrir Akureyringa í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íslandsmeistarar Skautafélags Akureyrar sigruðu NSA Sofia frá Búlgaríu, 6:5, eftir framlengingu og bráðabana í fyrsta leik sínum í fyrstu umferð Evrópukeppni félagsliða karla í íshokkí í Sofia í Búlgaríu í dag.

Akureyrarliðið er þar í fjögurra liða riðli sem leikinn eru um helgina og sigurliðið kemst í aðra umferð keppninnar en þetta er í fjórða sinn sem SA tekur þátt í þessari keppni.

Búlgararnir náðu forystu strax á 4. mínútu en Jóhann Leifsson jafnaði fyrir Akureyringa á 13. mínútu, 1:1, og þannig stóð eftir fyrsta leikhluta.

Aftur komust heimamenn yfir í byrjun annars hluta en Gunnar Arason var aðeins 20 sekúndur að jafna metin í 2:2. Jóhann skoraði síðan sitt annað mark og kom SA yfir en Búlgarnir jöfnuðu á ný rétt áður en leikhlutanum lauk, 3:3.

Á fyrstu átta mínútum þriðja og síðasta leikhluta skoruðu Andri Mikaelsson og Birkir Einisson, 5:3, og  staða Akureyringa var orðin vænleg. en fjórum mínútum síðar, eftir  tvö mörk á aðeins 15 sekúndum, var allt jafnt á ný, 5:5.

Ekkert mark var skorað í framlengingunni og því þurfti að grípa til bráðabana. Jóhann Leifsson skoraði í fyrstu umferð fyrir SA og eftir það kom ekki mark fyrr en í síðustu umferðinni. Þá skoraði Jóhann aftur, eftir að Róbert Steingrímsson markvörður SA hafði varið frá Emil Zaalev, og sigurinn var í höfn.

Króatíska liðið KHL Sisak vann Tartu Valk frá Eistlandi 7:2 í hinum leik riðilsins í dag. Akureyringar mæta Sisak á morgun og Tartu í lokaumferðinni á sunnudaginn. Sigurvegararnir í riðlinum komast áfram í aðra umferð keppninnar.

mbl.is