Ómar Ingi íþróttamaður ársins

Ómar Ingi Magnússon tekur við verðlaunagripnum stóra úr hendi Tómasar …
Ómar Ingi Magnússon tekur við verðlaunagripnum stóra úr hendi Tómasar Þórs Þórðarsonar formanns Samtaka íþróttafréttamanna. mbl.is/Hákon

Handknattleiksmaðurinn Ómar Ingi Magnússon var í kvöld útnefndur íþróttamaður ársins 2022 í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna sem lýst var í Hörpu í Reykjavík.

Þetta er annað árið í röð sem Ómar hlýtur þennan eftirsótta titil en hann sigraði í kjörinu með miklum yfirburðum og hlaut 615 stig af 620 mögulegum.

Ómar Ingi, sem er 25 ára gamall, átti einstaklega gott ár, bæði með Magdeburg í Þýskalandi og íslenska landsliðinu. Hann varð þýskur meistari með Magdeburg og var kjörinn besti leikmaðurinn í Þýskalandi tímabilið 2021-22 ásamt því að hann varð næstmarkahæstur í þýsku 1. deildinni og þriðji hæstur í stoðsendingum. Ómar vann jafnframt heimsmeistaramót félagsliða með Magdeburg í haust.

Á yfirstandandi tímabili hefur Ómar farið á kostum í fjölmörgum leikjum Magdeburg og er sem stendur sjötti markahæstur í þýsku deildinni og níundi í stoðsendingum þrátt fyrir að hafa leikið tveimur til þremur leikjum minna en keppinautarnir á þeim listum. Þá er Ómar í fjórða sæti yfir markahæstu leikmenn Meistaradeildar Evrópu á þessu tímabili og missti þó af tveimur leikja Magdeburg fyrir jól.

Ómar var í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu sem kom nokkuð á óvart á Evrópumótinu í Ungverjalandi í janúar og hafnaði í sjötta sæti. Ómar varð markakóngur mótsins með 59 mörk og er annar Íslendingurinn í sögunni, á eftir Ólafi Stefánssyni, til að verða markakóngur EM.

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Bayern München í Þýskalandi, hafnaði í öðru sæti í kjörinu og þriðji varð Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og samherji Ómars Inga hjá Magdeburg í Þýskalandi.

mbl.is