Þá setti maður hausinn bara niður og vonaði það besta

Leikmenn SR fagna í kvöld.
Leikmenn SR fagna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Kári Arnarsson var hetja SR en hann skoraði sigurmark liðsins í framlengingu í sigri gegn SA, 5:4, í fjórða leik úrslitaeinvígisins um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. Kári skoraði tvö mörk í leiknum.

„Þetta er geggjuð tilfinning. Ég er eiginlega bara í adrenalínsjokki.“

SR komst þrisvar yfir í leiknum áður en SA komst í 4:3. Sölvi Atlason jafnaði svo metin fyrir SR þegar rúm mínúta var eftir, en SR hafði tekið markvörð sinn úr markinu til að bæta í sóknarþungann.

„Já við vorum einhvern veginn alltaf rólegir. Við vissum að myndum skora, eða fá tækifæri til að skora og tökum markmanninn útaf. Sölvi gerir svo mjög og setur hann, við vissum að við myndum taka þá í framlengingu.“

Framlenging í íshokkí fer þannig fram að einungis þrír útispilarar úr hvoru liði eru á svellinu í einu og liðið sem skorar á undan vinnur. Hver er töfraleiðin til að vinna svona framlengingar?

„Aðalatriðið er bara að vera með pökkinn eins mikið og þú getur, þeir skora ekki á meðan. Þeir gerðu vel og Jóhann komst einn í gegn, þá setti maður bara hausinn niður og vonaði það besta en Atli bjargaði okkur vel þar. Síðan reyndum við bara halda í pökkinn eins mikið og við gátum, og gerðum það. Við vorum eiginlega allan tímann með pökkinn og það skilaði sér að lokum.“

Atli Valdimarsson, markvörður SR, var frábær í leiknum í kvöld og hefur verið það í öllu einvíginu.

„Atli er búinn að vera magnaður fyrir okkur í öllu einvíginu. Hann er besti maðurinn í þessu liði og það vita það allir, hann er bara geggjaður.“

Oddaleikur einvígisins fer fram á Akureyri á fimmtudagskvöld þar sem Íslandsmeistarar verða krýndir.

„Já við ætlum bara að sigra. Við þurfum að gefa allt í þetta, passa þessi föstu leikatriði, spila einfalt og halda okkur frá boxinu, þá erum við með þetta.“

Kári Arnarsson á svellinu í leik tvö í einvíginu.
Kári Arnarsson á svellinu í leik tvö í einvíginu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert