Mótaröðin að byrja á Hólmsvelli

Kristján Þór Einarsson er með forystu í karlaflokki en verður ...
Kristján Þór Einarsson er með forystu í karlaflokki en verður þó ekki með á þessu fyrsta móti ársins. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrsta mót ársins í Eimskipsmótaröð Golfsambands Íslands hefst núna í morgunsárið, eða klukkan 7.30, þegar fyrstu kylfingar fara af stað á Egils Gullmótinu á Hólmsvelli í Leiru.

Þarna verða margir af bestu kylfingum landsins á ferðinni en nokkrir þeirra verða þó fjarverandi vegna keppni erlendis. Alls eru 104 kylfingar skráðir til leiks.

Mótaröðin hófst í september 2016 þegar tvö fyrstu mótin fóru fram. Kristján Þór Einarsson úr GM er með forystu í karlaflokki, 1.500 stig, Tumi Hrafn Kúld úr GA er annar með 1.262,50 stig og Hrafn Guðlaugsson úr GSE er þriðji með 907,50 stig.

Kristján verður þó fjarri góðu gamni á þessu móti þar sem hann tekur sveinspróf í húsasmíði á sama tíma og mótið fer fram.

Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR er efst í kvennaflokki með 1.700 stig, Hafdís Alda Jóhannsdóttir úr GK er með 1.150 stig og Berglind Björnsdóttir úr GR er þriðja með 1.000 stig.

Björgvin Þorsteinsson, sexfaldur Íslandsmeistari úr GA, mætir til leiks, 64 ára gamall og er elsti keppandi mótsins. Þórdís Geirsdóttir úr GK, sem einu sinni hefur orðið Íslandsmeistari, er elst í kvennaflokki á mótinu, 54 ára gömul.

mbl.is