Birgir fékk tvo erni á sama hringnum

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson Ljósmynd/European Champinships

Birgi Leifi Hafþórssyni úr GKG tókst að komast í gegnum niðurskurð keppenda á Portugal Masters á Evrópumótaröðinni í golfi með frábærri frammistöðu á öðrum hringnum í dag. 

Birgir lék í gær á 73 höggum og var á tveimur yfir pari vallarins. Þegar hann fór á teig í dag var orðið líklegt að hann þyrfti að vera á þremur höggum undir pari samtals til að komast í gegnum niðurskurðinn og leika síðari tvo hringina um helgina. 

Birgir þurfti því að leika á 66 höggum eða betur í dag og það var einmitt það sem hann gerði. Birgir Leifur skilaði inn skorkorti upp á 66 högg sem er fimm högg undir pari vallarins og er því samtals á þremur undir pari. Birgir þurfti á fugli að halda á lokaholunni sem í erfiðari kantinum og náði því.

Skorkortið var býsna skrautlegt en Birgir fékk tvo erni á hringnum en einnig fjóra fugla, þrjá skolla og níu pör. 

Birgir er í 65. - 82. sæti en með því að komast í gegnum niðurskurðinn fær hann verðlaunafé. Ýmsir kunnir kappar eru með í mótinu, til að mynda Sergio Garcia, sem mun keppa í Ryder-bikarnum í næstu viku. Garcia er samtals á sjö undir pari. Charl Schwartzel sem sigraði á Masters 2011 er á sama skori. 

Oliver Fischer er efstur á tólf undir pari eftir að hafa leikið á 59 höggum í dag sem eru sjaldséðar tölur. 

Padraig Harrington, þrefaldur sigurvegari á risamótum, komst ekki í gegnum niðurskurðinn frekar en önnur gömul kempa, Angel Cabrera sem sigraði tvívegis á Opna bandaríska. Fleiri kunnir kylfingar máttu sætta sig við það eins og Jamie Donaldsson sem tryggði Evrópu sigur í Rydernum árið 2014. Svíinn Freddie Jacobson komst ekki áfram né Zander Lombard sem lék svo vel í ráshópi með Haraldi Franklín á The Open í sumar. 

mbl.is