Efstur á minnsta mun eftir fimm ára bið

Rory McIlroy hefur unnið fjögur risamót á ferlinum.
Rory McIlroy hefur unnið fjögur risamót á ferlinum. AFP

Norður-Írinn Rory McIlroy er kominn í efsta sætið á heimslista karla í golfi sem birtur var í morgun og er þar með búinn að endurheimta það eftir fimm ára fjarveru.

McIlroy, sem er þrítugur, ýtir Bandaríkjamanninum Brooks Koepka úr efsta sætinu þrátt fyrir að hvorugur hafi keppt um síðustu helgi en stigin eru reiknuð tvö ár aftur í tímann og því verða alltaf einhverjar breytingar á þeim í hverri viku, að þessu sinni McIlroy í hag. Fyrir helgi var hann 0,2 stigum á eftir Koepka en er nú 0,03 stigum fyrir ofan hann.

Hann var síðast á toppi listans í september árið 2015, þá 25 ára gamall, en samanlagt er þetta hans 96. vika í efsta sætinu. Aðeins Tiger Woods (683), Greg Norman (331) og Nick Faldo (97) hafa verið fleiri vikur á toppi listans.

Þeir McIlroy og Koepka mætast síðar í þessari viku á Genesis-boðsmótinu í Kaliforníu sem hefst á fimmtudaginn.

mbl.is