Haraldur rétt fyrir ofan Guðmund Ágúst

Haraldur Franklín Magnús varð efstur Íslendinganna.
Haraldur Franklín Magnús varð efstur Íslendinganna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús hafa lokið leik á opna Eur­am Bank-mót­inu í Aust­ur­ríki sem er hluti af Evr­ópu­mótaröð karla í golfi. Haraldur hafnaði í 50. sæti og Guðmundur í 57. sæti. 

Haraldur lék á 75 höggum á fjórða og síðasta hringnum í dag eða fimm höggum yfir pari og var hringurinn sá lakasti á mótinu. Fékk hann þrjá skolla og einn tvöfaldan skolla. Lék hann á samtals einu höggi yfir pari. 

Guðmundur Ágúst var í toppbaráttu framan af en slæmur hringur í gær skemmdi fyrir Íslandsmeistaranum. Lék hann fjórða hringinn í dag á 74 höggum, fjórum höggum yfir pari og lauk hann leik á samtals þremur höggum yfir pari. 

Andri Þór Björnsson komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi og hafnaði í 66. sæti. 

mbl.is