Þriðji titilinn á síðustu fjórum árum

Liðsmenn GKG með sigurverðlaunin.
Liðsmenn GKG með sigurverðlaunin. Ljósmynd/Seth@golf.is

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar varð í dag Íslandsmeistari golfklúbba í karlalfokki í sjöunda sinn og í þriðja sinn á síðustu fjórum árum. Hafði GKG betur gegn Keili í úrslitum í dag, 4:1, en leikið var á Leir­dals­velli og Urriðavelli.

Hlynur Bergsson, Kristófer Þórðarson, Ólafur Björn Loftsson, Egill Ragnar Gunnarsson, Aron Snær Júlíusson, Sigurður Arnar Garðarsson og Bjarki Pétursson skipa lið GKG, sem varð einnig meistari á síðasta ári. 

Í viðureigninni um þriðja sætið hafði Golfklúbbur Reykjavíkur betur gegn Golfklúbbi Mosfellsbæjar, 4:1. Viktor Ingi Einarsson, Arnór Ingi Finnbjörnsson, Hákon Örn Magnússon, Dagbjartur Sigurbrandsson, Andri Þór Björnsson, Böðvar Bragi Pálsson og Jóhannes Guðmundsson skipa lið GR. 

mbl.is