Sviptingar á toppnum

Justin Thomas.
Justin Thomas. AFP

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas endurheimti í dag efsta sæti heimslistans í golfi og Spánverjinn Jon Rahm var því ekki lengi á toppnum. 

Thomas sigraði í gærkvöldi á World Golf Championship, St. Jude Invitational, í Memphis í Tennessee. Með sigrinum fer hann úr 3. sæti listans í efsta sæti. 

Jon Rahm er í 2. sæti en hann var aðeins í tæpar tvær vikur í efsta sæti listans. Rory McIlroy er kominn niður í 3. sæti en var í efsta sæti fyrri hluta ársins. 

Thomas hefur þrettán sinnum unnið mót í PGA-mótaröðinni bandarísku og er einungis 27 ára gamall. Takist kylfingum að vinna 20 mót í mótaröðinni fá þeir keppnisrétt í PGA eins lengi og þeir óska. 

Thomas hefur þó „aðeins“ einu sinni unnið risamót en það var PGA-meistaramótið árið 2017. Það mót hefst einmitt á fimmtudaginn. 

Jon Rahm.
Jon Rahm. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert