Rúmir tveir milljarðar í húfi

Dustin Johnson
Dustin Johnson AFP

The Tour Championship, lokamótið á PGA-mótaröðinni í golfi, er hafið í Atlanta í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Lýkur þar með FedEx-úrslitakeppninni þar sem keppt er um 15 milljónir dollara. 

Fedex-stigalistinn er í gangi allt tímabilið en mótin þrjú sem tilheyra úrslitakeppnininni gilda meira en önnur. Þá er einnig fækkað smám saman í keppendahópnum og einungis þrjátíu efstu á stigalistanum fá að vera með í lokamótinu. Sá sem hafnar í efsta sæti stigalistans fær þessa svimandi háu upphæð í vasann eða rúma tvo milljarða íslenskra króna. 

Árangur keppenda í úrslitakeppninni gefur þeim ákveðna stöðu í lokamótinu. Dustin Johnson byrjar mótið með tíu högg í forgjöf eða -10. Aðrir þurfa að elta hann uppi til að vinna lokamótið. Jon Rahm hefur leik á -8 og Justin Thomas á -7. Rory McIlroy sem vann í fyrra er nokkuð á eftir og byrjar mótið á -3. 

mbl.is