Röddin er þögnuð

Peter Alliss fylgist með Wimbledon mótinu í tennis árið 2013.
Peter Alliss fylgist með Wimbledon mótinu í tennis árið 2013. AFP

BBC tilkynnti á sunnudag andlát sjónvarpsmannsins þekkta Peters Alliss, en hann var 89 ára gamall. 

Fram kom í tilkynningu frá aðstandendum að andlátið hefði verið óvænt en dánarorsök var ekki tilgreind. 

Peter Alliss var fyrir löngu orðinn rödd golfíþróttarinnar á Bretlandseyjum og raunar víðar. Góð innsýn í íþróttina, rík kímnigáfa og sérstakur talandi gerði það að verkum að hann naut mikilla vinsælda í áratugi. Hann þótti oft fara á kostum þegar lýsa þurfti heilu og hálfu dagana frá risamótum í íþróttinni eins og Opna breska meistaramótinu, The Open. 

Peter Alliss lýsti fjöldanum öllum af mögnuðum augnablikum í beinni útsendingu þegar úrslitin réðust á stórmótum. En hann hafði einnig lag á því að stela senunni við ýmis tækifæri. Til að mynda vakti mikla athygli þegar hann gerði góðlátlegt grín að hinum litríka Spánverja Miguel Angel Jimenez og teygjum sem hann gerði í upphitun. 

Alliss hafði raunar verið snjall kylfingur sjálfur og náði góðum árangri sem atvinnumaður á bresku mótaröðinni sem síðar varð að Evrópumótaröðinni. Hann náði til dæmis að leika átta sinnum í keppninni um Ryder-bikarinn en framan af var sú keppni á milli Breta og Bandaríkjamanna. 

Fyrir framlag sitt sem kylfingur og sjónvarpsmaður var Peter Alliss tekinn inn í Frægðarhöllina, World Golf Hall of Fame. Þar flutti hann góða og á köflum meinfyndna ræðu sem hlýða má á í meðfylgjandi myndskeiði. Ósennilegt verður að teljast að mörg dæmi séu um að ræðum, við hátíðleg tækifæri sem þetta, ljúki með svipuðum hætti og Alliss lauk þessari. 

mbl.is