Hitti allar flatirnar í tilskyldum höggafjölda

Patrick Cantlay á Pebble Beach í gær.
Patrick Cantlay á Pebble Beach í gær. AFP

Akshay Bhatia, 19 ára gamall kylfingur frá Bandaríkjunum, vakti mikla athygli þegar AT&T mótið í golfi hófst á hinum glæsilega velli Pebble Beach í Kaliforníu á PGA-mótaröðinni í gær. 

Bhatia hitti allar átján flatirnar í tilskyldum höggafjölda eins og það er kallað og skilaði inn glæsilegu skori upp á 64 högg. Í tilskyldum höggafjöld er átt við að kylfingur sé kominn inn á flöt og geti púttað fyrir fugli [eða mögulega erni]. 

Jafnvel á meðal bestu kylfinga heims þykir afskaplega gott að eiga pútt fyrir fugli á hverri einustu flöt en golfblaðamönnum þykir þetta sérlega athyglisvert á Pebble Beach. Völlurinn er nefnilega þekktur fyrir fremur litlar flatir miðað við marga heimsfræga velli. 

AT&T mótið fer ávallt fram á Pebble Beach og síðast gerðist það árið 2008 að kylfingur hitti allir flatirnar á hringnum í tilskyldum höggafjölda eins og Bhatia gerði. 

Lék hann á 8 höggum undir pari vallarins en þótt ótrúlegt kunni að virðast þá er hann ekki efstur að loknum fyrsta keppnisdegi því Patrick Cantlay lék á 62 höggum. Þá lék Svíinn Henrik Norlander einnig á 64 höggum. 

mbl.is