Nítján ára 120 milljónum ríkari

Yuka Saso fagnar með bikarinn eftirsótta.
Yuka Saso fagnar með bikarinn eftirsótta. AFP

Hin nítján ára gamla Yuka Saso frá Filippseyjum fagnaði sigri á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi í San Francisco í Kaliforníu í gær. Saso lék hringina fjóra á fjórum höggum undir pari en bráðabana þurfti til þess að skera úr um sigurvegara á mótinu.

Nasa Hataoka frá Japan lék einnig á fjórum höggum undir pari en Saso tryggði sér sigur með þriggja metra pútti á þriðju holu bráðabanans. Hún er annar táningurinn í sögunni til þess að vinna á Opna bandaríska meistaramótinu.

Fyrir sigurinn fékk hún eina milljón bandaríkjadollara en það samsvarar um 120 milljónum íslenskra króna. Hataoka fékk tæplega 50 milljónir íslenskra króna fyrir að hafna í öðru sæti.

mbl.is