McIlroy byrjar best en Tiger er aftarlega

Tiger Woods og Rory McIlroy stefna hvor í sína áttina …
Tiger Woods og Rory McIlroy stefna hvor í sína áttina á PGA-meistaramótinu. AFP/Christian Petersen

Norður-Írinn Rory McIlroy lék fyrsta hringinn á PGA-meistaramótinu í golfi í Tulsa í Oklahoma í dag á 65 höggum, fimm undir pari vallarins, og er með forystuna sem stendur.

Margir öflugir kylfingar eiga eftir að ljúka keppni í kvöld en enginn virðist  sem stendur líklegur til að ógna forystunni hjá Norður-Íranum öfluga sem hefur fjórum sinnum unnið risamót á ferlinum.

Jordan Spieth og Tiger Woods voru í öflugum ráshópi með McIlroy í dag og þeir náðu sér ekki á strik. Spieth lék á 72 höggum, tveimur yfir pari, og deilir sem stendur 88. sætinu en Tiger lék á 74 höggum, fjórum yfir pari, og deilir 120. sætinu. Keppendur eru 156 og fækkar um helming eða svo að tveimur hringjum loknum.

mbl.is