Kaldar kveðjur eftir 34 ár

Dómararnir Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.
Dómararnir Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Athygli vekur að eitt reyndasta dómarapar landsins, Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson, dæmir engan af sex leikjum í undanúrslitum eða í úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla og kvenna í Laugardalshöll næstu þrjá daga. Þá er ráðgert að Ingvar Guðjónsson dæmi annan undanúrslitaleikinn í kvennaflokki ásamt Eydun Samuelsen frá Færeyjum, en ekki Þorleifi Árna Björnssyni.

„Okkur þykir við fá kaldar kveðjur frá Guðjóni L. Sigurðssyni, formanni dómaranefndar, eftir að hafa dæmt í 34 ár,“ sagði Gísli afar vonsvikinn í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Sú staðreynd að við fengjum ekki einn af leikjunum sex hefur legið fyrir í nokkra daga. Síðan hef ég reynt að ná í Guðjón en hann hefur ekki svarað í síma. Við teljum okkur ekki eiga skilið framkomu af þessu tagi eftir hafa verið duglegir að dæma í rúm 30 ár. Við erum sárir og svekktir. Ef Guðjón hefði hringt í okkur og skýrt fyrir okkur af hverju við værum ekki inni í myndinni hefðum við kannski sætt okkur við þessa staðreynd,“ sagði Gísli ennfremur.

Sjá allt viðtalið við Gísla og við Guðjón L. Sigurðsson formann dómaranefndar HSÍ í Morgunblaðinu í dag

mbl.is