„Við brotnuðum niður í öreindir“

Alexander (t.h.) stöðvar Einar Rafn Eiðsson í kvöld.
Alexander (t.h.) stöðvar Einar Rafn Eiðsson í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alexander Júlíusson, leikmaður Vals, var afar vonsvikinn yfir því hvernig hann og samherjar hans brugðust við mótlæti í kvöld þegar FH vann Val 30:25 í fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. 

Staðan er nú 2:2 og oddaleikur fram undan í Kaplakrika. Valur hefur oft spilað góða vörn í mikilvægum leikjum í vetur en sú varð ekki raunin í kvöld og að loknum fyrri hálfleik hafði liðið fengið á sig 19 mörk en skorað 12. 

„Varnarleikurinn hefur verið okkar einkennismerki og við vorum ólíkir sjálfum okkur að því leytinu til í dag. Væntingarnar voru gríðarlegar fyrir leik. Bikarinn var í augsýn og við á heimavelli. Að lenda strax tveimur mörkum undir var mikið högg fyrir okkur og við höndluðum það illa. Þá jókst forskotið,“ sagði Alexander en í fyrstu þremur leikjunum hafði Valur iðulega frumkvæðið framan af leikjunum. 

„Já nákvæmlega. Allir leikirnir hafa þróast á þá leið að við höfum náð forskoti og verið yfir í hálfleik. Þetta voru mikil viðbrigði fyrir okkur og leiðinlegt að þetta hafi farið svona. Sérstaklega á heimavelli fyrir framan okkar fólk. Við vorum staðráðnir í því að sigla þessu heim hérna í kvöld. Það versta við þetta er hvernig við brotnuðum niður í öreindir og snerumst hver gegn öðrum,“ sagði Alexander enn fremur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka