Fram saxaði á forskot toppliðanna

Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að marki Selfyssinga í kvöld.
Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að marki Selfyssinga í kvöld. mbl.is/Eggert

Fram minnkaði forystu toppliða Olísdeildar kvenna í handbolta, Vals og Hauka, í tvö stig með öruggum 28:18-sigri gegn Selfossi í 15. umferð deildarinnar í Safamýri í kvöld.

Fram hóf leikinn af miklum krafti og fljótlega varð ljóst hvoru megin sigurinn myndi lenda. Fram náði hægt og bítandi þægilegum mun og Fram var níu mörkum yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. 

Selfyssingar bitu í skjaldarrendur í seinni hálfleik og ungt lið gestanna náði að halda í horfinu. Selfoss lék án Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur, Kristrúnar Steinþórsdóttur og Perlu Ruthar Albertsdóttur í leiknum og er það klárlega skarð fyrir skildi.  

Ragnheiður Júlíusdóttir, Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru markahæstar í liði Fram með sex mörk hver. Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir drógu hins vegar vagninn í sóknarleik Selfoss. 

Fram fór að lokum með tíu marka sigur af hólmi og úrslit kvöldsins þýða að liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig og er tveimur stigum frá toppsæti deildarinnar. Selfoss er hins vegar í sjötta sæti deildarinnar með sjö stig og er þremur stigum frá fallsvæðinu. 

Fram 28:18 Selfoss opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með öruggum tíu marka sigri Fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert