„Munum fá margt fólk með okkur“

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, reiknar fastlega með því að Selfyssingar fái góðan stuðning í Laugardalshöllinni þegar Selfoss og Fram takast á í undanúrslitum Coca Cola-bikarkeppni karla í handbolta en dregið var í hádeginu. 

„Já 100%. Ég hef upplifað það á heimaleikjunum í vetur að við erum alltaf að fá fleiri og fleiri áhorfendur. Ég held að hjá okkur sé einna best mætt á leiki í vetur. Ég er því 100% á því að við munum fá margt fólk með okkur,“ sagði Patrekur þegar mbl.is spjallaði við hann þegar niðurstaðan lá fyrir. 

Patrekur segir leikina í 8-liða úrslitum hafa verið áminningu um að ekkert sé gefið í bikarleikjum. „Ég veit hvernig þessi bikar er. Framararnir tóku FH-ingana létt í síðustu umferð og við lentum í vandræðum á móti Þrótti (sem leikur í B-deildinni). Ef þú ætlar að vinna bikarinn þá þarftu að fara í gegnum hvað sem er og þar skiptir ekki máli hver staðan er í deildinni. Framarar geta átt toppleiki og við þurfum að vera vel undirbúnir.“

Patrekur er hrifinn af fyrirkomulagi keppninnar þar sem undanúrslitin og úrslitin eru afgreidd í Laugardalnum á þremur dögum. „Þessi helgi er mjög skemmtileg og ekki síst vegna yngri flokkanna á sunnudeginum. Fyrirmyndin að þessu er sjálfsagt frá Hamborg í Þýskalandi. Auðvitað er það stærra í sniðum og allt það en þetta er frábært fyrir leikmenn og félögin. Ég hef tekið þátt í þessu fyrirkomulagi nokkrum sinnum og er mjög sáttur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert