Ótrúlega gaman að spila í Eyjum

Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði fjögur mörk í dag.
Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði fjögur mörk í dag. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Ragnheiður Júlíusdóttir, leikmaður Fram, var glöð í bragði er mbl.is spjallaði við hana eftir 28:23-sigur á ÍBV í síðustu umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í dag. Fram tapaði fyrir Haukum í síðustu umferð og var Ragnheiður ánægð með svarið í dag. 

„Fyrst og fremst ætluðum við að mæta mikið betur en í síðasta leik, því hann var mikil vonbrigði. Í dag spiluðum okkar leik og keyrðum vel á þær á meðan við spiluðum almennilega vörn, það gekk vel."

Fram var í mikilli baráttu um deildarmeistaratitilinn en tapið gegn Haukum gerði út um þær vonir. 

„Við erum rosalega ósáttar með þann leik og fyrst og fremst hvernig við mættum til leiks. Svoleiðis á ekki að vera í boði, sérstaklega eftir að við rústuðum þeim í bikarúrslitunum. Það gaf okkur hins vegar auka styrk í dag."

Fram og ÍBV mætast í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn og er Ragnheiður spennt fyrir einvíginu.

„Þetta verður hörkueinvígi. Það er alltaf hörkustemning í Eyjum og ótrúlega gaman að spila þar. Ég er mjög spennt fyrir því og vonandi mætum við 100% í alla leiki. Þetta eru tvö lið sem treysta á sína heimavelli og það er mikilvægt hjá okkur að vera með heimavallarétt. Vonandi löndum við titlinum í ár."

Tímabilið hjá Fram var nokkuð kaflaskipt. Byrjunin var ekki sérlega góð, en liðið varð sterkara eftir því sem leið á tímabilið. 

„Um áramótin var ég ekki sérstaklega bjartsýn, en svo fengum við góða leikmenn inn og urðum sterkari. Þá unnum við marga leiki í röð og þá varð ég bjartsýnni, en leikurinn á miðvikudaginn fór algjörlega með þetta að mínu mati," sagði Ragnheiður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert