„Eins gott að dómurinn hafi verið réttur“

Leó Snær Pétursson.
Leó Snær Pétursson. mbl.is/Árni Sæberg

Leó Snær Pétursson var drjúgur fyrir Stjörnuna í Mýrinni í kvöld og skoraði 7 mörk en það dugði ekki til því Selfoss vann Stjörnuna 30:28. Selfoss er komið í undanúrslit en Stjarnan er úr leik í 8-liða úrslitum sem svo oft var hlutskipti liðsins á árum áður.  

„Það eru gríðarlega vonbrigði að fara í sumarfrí svona snemma. Við gáfum gersamlega allt í þetta í dag og mér fannst við vera betri aðilinn. Það kemur náttúrlega risastórt atvik þegar Bjarki (Már Gunnarsson) er rekinn út af. Ég verð að sjá það betur á sjónvarpsmyndum en það er eiginlega eins gott fyrir dómarana að sá dómur hafi verið réttur. Þegar besti varnarmaður deildarinnar fer út úr miðri vörninni þá segir sig sjálft að það er mjög dýrt,“ sagði Leó en Bjarki fékk rauða spjaldið á 37. mínútu fyrir brot á Elvari Erni Jónssyni. 

Stjarnan byrjaði mjög vel og komst í 5:1 í leiknum. Að loknum fyrri hálfleik hafði Stjarnan yfir 16:13. „Ég hafði mjög góða tilfinningu fyrir þessu í fyrri hálfleik. Við vitum hvað við getum og ætluðum að vera afslappaðir og ná í oddaleik. Mér fannst við sýna það að miklu leyti og refsuðum þeim grimmt í fyrri hálfleik með hraðaupphlaupum hvað eftir annað. Maður hafði á tilfinningunni í hálfleik að við værum með þá. Eðlilega duttum við aðeins niður eftir rauða spjaldið því það var högg fyrir okkur,“ sagði Leó í samtali við mbl.is. 

Bjarki Már Gunnarsson sendur af velli í kvöld.
Bjarki Már Gunnarsson sendur af velli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is