Atli Már heldur í vonina

Atli Már Báruson.
Atli Már Báruson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvíst er að Atli Már Báruson geti leikið meira með Haukum í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta eftir að hann handarbrotnaði á æfingu á mánudag, daginn fyrir fyrsta leik við ÍBV í undanúrslitum.

Vísir greindi fyrst frá handarbroti Atla í gær og sagði tímabilinu lokið hjá skyttunni rétthentu, en Atli heldur í vonina um að spila meira.

„Ég var í fintu og fékk högg á vinstri höndina. Hún bólgnaði en ég ætlaði samt að reyna að spila daginn eftir. Ég fann hins vegar eiginlega of mikinn verk til að geta það og var ráðlagt að spila ekki seinni hálfleikinn af þeim sökum og fara í myndatöku þegar ég kæmi heim,“ segir Atli. Myndatakan leiddi eftirfarandi í ljós:

„Það er brot í einhverju beini þarna og ég verð í gifsi fram á næsta miðvikudag, daginn fyrir næsta leik við ÍBV. Sá dómur hefur ekkert verið kveðinn upp að tímabilið sé búið. Það fer svolítið eftir því hvernig þetta grær, auk þess sem brotið er í vinstri hendi, sem er það jákvæða í þessu. Við erum ekki bjartsýnir á að ég spili næsta leik en ég mun æfa með liðinu og sjá hvernig þetta gengur og fara svo í aðra skoðun næsta miðvikudag,“ segir Atli og bætir við:

„Þetta er auðvitað alveg glatað. Maður er búinn að bíða eftir úrslitakeppninni í níu mánuði og meiðist svo þegar komið er í undanúrslitin. En hugsanlega verð ég með í þessu einvígi við ÍBV og ef við komumst áfram ætti ég alla vega að geta verið með í úrslitaeinvíginu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert