Alfreð ekki á leið til Melsungen

Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Ljósmynd/eurohandball.com

Þýska handknattleiksliðið Melsungen hefur neitað þeim fregnum að það sé að reyna að krækja í Alfreð Gíslason frá Kiel og fá hann til að taka við þjálfun liðsins.

Sky í Þýskalandi greindi frá því í gær að Melsungen hefði augastað á Alfreð og viðræður við hann væri þegar hafnar en þessu neitar Axel Geerken stjórnarformaður Melsungen í samtali við vefinn handball-world.

„Það er ekkert til í þessu. Það hafa ekki átt sér stað neinar viðræður við Alfreð og neinir fundir með honum. Ég ræddi síðast við Alfreð þegar við spiluðum í Kiel en það var ekkert um þetta,“ segir Geerken í samtali við handball-world.

Alfreð á eitt ár eftir af samningi sínum við Kiel en hann hefur verið við stjórnvölinn hjá félaginu frá árinu 2008. Undir hans stjórn hefur Kiel orðið sex sinnum þýskur meistari, fimm sinnum bikarmeistari og hefur unnið Evrópumeistaratitilinn tvisvar sinnum. FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson mun ganga í raðir Kiel í sumar.

mbl.is