Myndin skýrðist ekki

Jóhann Karl Ingvarsson sækir að vörn ÍBV í gærkvöld.
Jóhann Karl Ingvarsson sækir að vörn ÍBV í gærkvöld. mbl.is/Hari

Ekki skýrðist í gærkvöldi hvort það verður Fimleikafélag Hafnarfjarðar eða Íþróttabandalag Vestmannaeyja sem hefur Íslandsbikarinn í handknattleik karla í vörslu sinni næsta árið.

Eftir tap í Vestmannaeyjum á laugardaginn bitu FH-ingar frá sér á heimavelli í gærkvöldi. Þeir unnu með þriggja marka mun, 28:25, og jöfnuðu þar með metin í rimmu liðanna. Hvort þeirra hefur nú einn vinning en þrjá vinninga þarf til þess að fá Íslandsbikarinn í sína vörslu næsta árið.

FH var lengst af með frumkvæðið og hafði m.a. tveggja marka forskot þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. 15:13.

Þriðja viðureign liðanna fer fram í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum annað kvöld. Þar mun sjóða á keipum frá upphafi til enda. Viðureignin í gærkvöldi gaf svo sannarlega fyrirheit um að hvergi verður hvikað næst þegar liðin leiða saman hesta sína. Þriðja viðureignin hefur oft og tíðum verið lykilleikur í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu árum og liðið sem unnið hefur þá viðureign oftar en ekki staðið uppi sem Íslandsmeistari, síðast í fyrra.

Sjá alla greinina um úrslitaeinvígið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag