„Fannst vera stress í liðinu“

Guðmundur Þórður Guðmundsson
Guðmundur Þórður Guðmundsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, hefur trú á því að Ísland komist áfram í lokakeppni HM eftir fyrri umspilsleikinn gegn Litháen í Vilnius í dag. 

„Mér finnst við eiga mikið inni því við getum gert miklu betur. Okkar leikur var á köflum allt of hægur. Við þurfum að spila hraðar. Mér fannst vera ákveðið stress í liðinu. Litháen er óþægilegur andstæðingur og mér fannst við hiksta í síðari hálfleik þegar boltinn gekk ekki nógu vel á milli manna. Ég hef mikla trú á verkefninu og eitt mark er í sjálfu sér ekki mikið en við þurfum að bæta okkar leik. Það er ljóst,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is að leiknum loknum í Vilnius en jafntefli varð niðurstaðan 27:27. 

Litháen sigraði Noreg með þriggja marka mun í undankeppni EM 2018 og tapaði með eins marks mun fyrir Frakklandi. Sú frammistaða Litháa var ekki heppni eins og sást í dag enda var íslenski hópurinn vel undirbúinn. 

„Þetta var erfiður leikur eins og við bjuggumst við. Við vissum hvernig Litháar hafa spilað á heimavelli og í hverju önnur lið hafa lent hérna. Við upplifðum svipaða hluti. Ég var að mestu leyti mjög ánægður með fyrri hálfleikinn fyrir utan það að við brenndum af of mörgum dauðafærum og það var allan leikinn. Það er eitthvað sem ég veit að við getum lagað og er sannfærður um að það verður í lagi í næsta leik,“ sagði Guðmundur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert