Að duga eða drepast

Vignir Svavarsson fagnar í landsleik með íslenska landsliðinu.
Vignir Svavarsson fagnar í landsleik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Golli

„Nú er að duga eða drepast fyrir okkur,“ sagði Vignir Svavarsson, landsliðsmaðurinn þrautreyndi í handknattleik, um landsleikinn við Litháa í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Laugardalshöll í kvöld og hefst klukkan 20.

Eftir jafntefli í fyrri leiknum, 27:27, í Vilnius á síðasta föstudag er allt opið fyrir viðureignina í kvöld en úrslit hennar mun ráða hvort liðið tekur sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla sem fram fer í Danmörku og í Þýskalandi í janúar á næsta ári. 

„Við verðum að stöðva sóknarleik Litháa betur en við gerðum í síðari hálfleik ytra á föstudaginn og fá fleiri mörk eftir hraðaupphlaup. Þess utan er nauðsynlegt að nýta betur opin marktækifæri en í fyrri leiknum,“ sagði Vignir, sem telur að sóknarleikurinn hafi að flestu leyti verið viðunandi í fyrri leiknum en hins vegar hafi vantað upp á varnarleikinn. Þar af leiðandi hafi jafntefli orðið niðurstaðan.

„Það alls ekkert gefið að vinna Litháa. Þeir hafa á að skipa vel mönnuðu liði sem leikur af skynsemi á þeim styrkleikum sem fyrir hendi eru. Ég tel okkur vel vera vel undirbúna fyrir viðureignina auk þess sem við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að við þurfum að eiga toppleik til þess að vinna og fá eins og venjulega öflugan stuðning, sem ævinlega hefur gefið okkur mikið þegar mest ríður á,“ sagði Vignir Svavarsson, landsliðsmaður í handknattleik og næstleikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í leiknum í dag með 238 landsleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert