Sætur sigur gegn Síle

Lovísa Thompson skoraði sigurmarkið gegn Síle.
Lovísa Thompson skoraði sigurmarkið gegn Síle. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska landsliðið í hand­knatt­leik kvenna, skipað leik­mönn­um 20 ára og yngri, hafði betur gegn Síle 23:22 í æsispennandi leik í lokaumferð riðlakeppninnar á heims­meist­ara­mót­inu sem nú stend­ur yfir í Debr­ecen í Ung­verjalandi.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Staðan að loknum fyrri hálfleik var jöfn 11:11 og í seinni hálfleik skiptust liðin á að hafa forystuna. Lovísa Thomp­son skoraði sigurmarkið þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Þegar 15 sekúndur voru til leiksloka skaut Sandra Erlingsdóttir yfir markið úr vítakasti. Liðsmenn Síle brunuðu upp völlinn en tókst ekki að koma skoti á mark íslenska liðsins og Íslendingar fögnuðu sætum sigri.

Ísland hafði fyrir leikinn tryggt sér sæti í 16-liða úrslitunum en Íslendingar enduðu með 7 stig í riðlinum. Rússland er efst með 8 stig og Suður-Kórea er með 7 eins og Ísland en Rússland og Suður-Kórea mætast síðar í dag. Markatala Suður-Kóreu er töluvert betri en Íslendinga og munar þar 28 mörkum svo nokkuð ljóst er að Ísland mun enda í þriðja sætinu í riðlinum.

Mörk Íslands: Lovísa Thomp­son 7, Sandra Erlingsdóttir 6, Berta Rut Harðardóttir 3, Andrea Jacobsen 3, Eva Arinbjarnar 2, Ragnheiður Edda Þórarinsdóttir 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1.

Varin skot: Heiðrún Dís Magnúsdóttir 11.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka