ÍBV fyrst til að vinna meistarana

Ragnheiður Júlíusdóttir skýtur að marki ÍBV í dag. Guðný Jenný ...
Ragnheiður Júlíusdóttir skýtur að marki ÍBV í dag. Guðný Jenný Ásmundsdóttir er til varnar í markinu. mbl.is/Hari

ÍBV varð í dag fyrst liða til að leggja Íslandsmeistara Fram af velli er liðin mættust í Framhúsinu í 6. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta. ÍBV var yfir nánast allan leikinn og urðu lokatölur 27:23. 

ÍBV byrjaði leikinn betur og eftir góðan kafla Eyjakvenna var staðan 6:2 eftir tæplega tíu mínútna leik og tók Stefán Arnarson, þjálfari Fram, þá leikhlé. Fram minnkaði muninn í kjölfarið í 6:4, en illa gekk hjá meisturunum að jafna leikinn.

Í hvert skipti sem Fram gerði áhlaup, svaraði ÍBV í sömu mynt. Fram jafnaði í 9:9 þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður, en ÍBV kláraði hann örlítið betur og var staðan í hálfleik 16:15, ÍBV í vil. Hálfleikurinn var hraður og skemmtilegur og vörðu markmenn beggja liða ágætlega, þótt mikið hafi verið skorað.

Fram náði fljótlega að jafna í 18:18 í síðari hálfleik og skömmu síðar komst Fram yfir, 20:19 og var það í fyrsta skipti síðan í stöðunni 1:0, sem Fram var með forystu. ÍBV var hins vegar fljótt að snúa því við á ný og var staðan 22:20, ÍBV í vil þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður.

ÍBV komst þremur mörkum yfir, þremur mínútum fyrir leikslok og þann mun náði Fram ekki að vinna upp. Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði 20 skot í marki ÍBV og Greta Kavaliauskaite skoraði átta mörk. Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði níu fyrir Fram. 

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Fram 23:27 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið ÍBV er fyrst liða til að vinna Fram.
mbl.is