Betra hljóð í mér núna en síðast

Birna Berg Haraldsdóttir sækir að marka Slóvena í landsleik í …
Birna Berg Haraldsdóttir sækir að marka Slóvena í landsleik í Laugardalshöllinni í mars. mbl.is/Árni Sæberg

Birna Berg Haraldsdóttir er óðum að jafna sig af erfiðum hnémeiðslum sem hafa haldið henni frá handboltavellinum frá því í lok mars. Hún er nú farin að æfa með liði sínu, Aarhus United, og er bjartsýn á að vera tilbúin í slaginn með liðinu í dönsku úrvalsdeildinni þegar keppni hefst á ný í janúar eftir hlé sem gert verður í desember vegna lokakeppni Evrópumótsins í Frakklandi.

„Það er allt annað og betra hljóð í mér núna en síðast þegar við töluðum saman,“ sagði Birna Berg létt í bragði við Morgunblaðið í gær en síðast heyrði blaðið í henni í lok ágúst. Þá hafði Birna nýlega gengist undir aðra aðgerð á liðþófa í hné á skömmum tíma. Gripið var til síðari aðgerðarinnar vegna þess að læknirinn sem gerði fyrri aðgerðina hafði ekki unnið verk sitt sem skyldi.

„Ég byrjaði loksins að æfa af fullum krafti á mánudaginn. Ég þarf samt að halda áfram að byggja upp hnéð og auka æfingaálagið jafn og þétt, sýna skynsemi og taka hvíldardaga inn á milli. En ég hef fengið fullt leyfi til þess að æfa með liðinu og beita mér að vild. Þar af leiðandi er ég bjartsýn um þessar mundir. Gangi allt samkvæmt áætlun ætti ég að fara að sjúkralista í desember og vera klár í slaginn með liðinu fimmta janúar í fyrsta leik okkar eftir EM-hléið,“ sagði Birna sem viðurkennir að bataferlið hafi tekið verulega á andlega jafnt sem líkamlega.

„Ég finn samt aðeins fyrir verkjum í hnénu en þeir eru miklu minni en þeir voru. Sennilega þarf ég að sætta mig við að hafa lítilsháttar verki í hnénu og lifa með þeim meðan ég leik handboltann. Fyrst og fremst verð ég að gæta mín vel og stýra æfinga- og leikjaálaginu,“ sagði Birna.

Viðtalið í heild sinni má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert