Drullufúlt að ná ekki að hanga á þessu

Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði átta mörk fyrir FH í kvöld.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði átta mörk fyrir FH í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var drullufúlt að ná ekki að hanga á þessu og vinna Haukana sem hefði verið ansi ljúft,“ sagði stórskyttan Bjarni Ófeigur Valdimarsson í liði FH við mbl.is eftir jafntefli við erkifjendurna úr Haukum í Olís-deild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Bjarni Ófeigur kom FH-ingum í 25:24 þegar um 15 sekúndur voru til leiksloka en á síðustu sekúndu leiksins jafnaði Adam Haukur Baumruk metin fyrir Haukana.

„Við áttum alveg von á að Adam Haukur tæki þetta lokaskot. Hann var alltaf að fara að taka þetta skot og því miður náðum við ekki að verjast því,“ sagði Bjarni, sem var mjög öflugur í liði FH eins og í síðustu leikjum liðsins en hann var markahæstur á vellinum í kvöld með átta mörk.

„Mér fannst við vera með yfirhöndina megnið af leiknum. Þeir náðu smá taki á leiknum í seinni hálfleik og við náðum að endurheimta forystuna og áttum að gera út um leikinn. Ég átti alveg von á svona spennuleik og við verðum að virða þetta stig. Hvert stig skiptir máli,“ sagði Bjarni, sem er að finna sig æ betur í FH-liðinu eftir rólega byrjun en hann kom til FH fyrir tímabilið frá Val en var í láni hjá Gróttu stóran hluta síðasta tímabils.

„Það er alltaf að koma meiri stöðugleiki í minn leik. Ég er búinn að vera mjög stöðugur í síðustu fimm leikjum og vonandi held ég þessu áfram.“

mbl.is