Málum ekki skrattann á vegginn

Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði 13 mörk í kvöld.
Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði 13 mörk í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Björgvin Hólmgeirsson var kátur er mbl.is spjallaði við hann eftir 31:25-sigur ÍR á Aftureldingu í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Hann var hins vegar ekki viss hvort sigurinn hafi verið sá sterkasti til þessa hjá ÍR á leiktíðinni. 

„Við höfum unnið nokkra góða sigra og spilað vel í leikjum. Haukarnir jafna á móti okkur á lokasekúndunum og við töpum með einu á móti Selfossi. Við höfum verið mjög nálægt fleiri góðum sigrum. Í dag small þetta og við unnum sannfærandi.

Vörnin var geggjuð og Stephen flottur fyrir aftan. Sóknarleikurinn var svo ágætur ofan á það. Það er uppskrift að góðum leik.“

Björgvin skoraði 13 mörk í kvöld og nýtti sér að tveir bestu markmenn Aftureldingar voru fjarverandi. Arnór Freyr Stefánsson er meiddur og Pálmar Pétursson í fríi. Í þeirra stað voru Brynjar Vignir Sigurjónsson og Björgvin Franz Björgvinsson í markinu.

„Það gekk vel hjá mér í dag. Það veikir þá óneitanlega að missa Pálmar og Arnór út en þessir strákar eru flottir. Það eru ekki margir búnir að verja víti frá mér í ár. Brynjar tekur það með í reynslubankann.“

ÍR er í áttunda sæti deildarinnar eftir sigurinn sem gefur sæti í úrslitakeppninni. 

„Við þurfum að núllstilla okkur eftir áramót. Við erum í átta liða úrslitum í bikar og í úrslitakeppninni. Við erum ekki að mála skrattann á vegginn,“ sagði Björgvin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert