Hannes fær heimsmeistara í sitt lið

Michael Kraus varð heimsmeistari með Þjóðverjum árið 2007 í Þýskalandi.
Michael Kraus varð heimsmeistari með Þjóðverjum árið 2007 í Þýskalandi. Ljósmynd/Stuttgart

Handknattleiksþjálfarinn Hannes Jón Jónsson, þjálfari þýska 1. deildarliðsins Bietigheim, fékk góðan liðsstyrk fyrir helgi þegar Michael Kraus samdi við félagið. Kraus, sem varð heimsmeistari með Þjóðverjum árið 2007 á HM í Þýskalandi, kemur til félagsins frá Stuttgart en til stóð að Kraus myndi yfirgefa Stuttgart í sumar þegar samningur hans við félagið átti að renna út.

Kraus rifti hins vegar samningi sínum við félagið á dögunum og mun því klára tímabilið í Þýskalandi með Bietigheim en Kraus er 35 ára gamall leikstjórnandi sem á að baki 129 landsleiki fyrir Þjóðverja þar sem hann hefur skorað 401 mark. Eins og áður sagði gildir samningur Kraus út tímabilið með möguleika á eins árs framlengingu.

Hannes Jón tók við þjálfun Bietigheim í byrjun febrúar á þessu ári en hann mun stýra liðinu út tímabilið og svo halda heim til Íslands þar sem hann mun þjálfa Selfyssinga í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð. Bietigheim er í sautjánda og næstneðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með 6 stig eftir 21 umferð, fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert