Okkur líður ekki illa á Hlíðarenda

Steinunn Björnsdóttir.
Steinunn Björnsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum ekki að fara í þetta einvígi til að verja titilinn heldur sækja hann,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, línumaður og fyrirliði Íslandsmeistara Fram, við mbl.is en Valur og Fram mætast í fyrsta leiknum í úrslitaeinvíginu um Íslandmeistaratitilinn í Olís-deild kvenna í handknattleik í Origo-höllinni í kvöld.

Fram vann Val í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð. Valur vann fyrsta leikinn en Fram vann næstu þrjá. Valur hefur unnið tvo af stóru titlinum á leiktíðinni en liðið varð deildarmeistari og vann Fram í úrslitaleik Coca Cola bikarsins.

„Það er búið að vera óþægilega löng bið eftir þessu einvígi en nú er komið að þessu og við erum svo sannarlega tilbúnar í átökin,“ sagði Steinn við mbl.is en hún er í stóru hlutverki í Fram-liðinu í vörn og sókn.

„Okkur líður ekkert illa á Hlíðarenda. Við erum búnar að vinna þar tvisvar í vetur en Valur vann deildina og bikarinn og það eru margir sem veðja á sigur Vals í þessu einvígi. Valur hefur sýnt mestan stöðugleika í vetur og vörn og markvarsla þeirra er sú besta. En á móti er sóknarleikur okkar góður og við ætlum að reyna að finna svör við þeirra varnarleik. Það er alveg skýrt í okkar huga að við ætlum okkur að vinna þennan titil en til þess þurfum við að spila vel í þessu einvígi.

Þetta eru tvö jöfn og góð lið og ætli ég meti ekki möguleikana 50/50. Þetta gæti farið 3:0 fyrir okkur, 3:0 fyrir Val eða 3:2 fyrir annað hvort liðið. Undanúrslitin voru ekki alveg nógu spennandi og ég held að það séu allar líkur á að þetta fari í fimm leiki,“ sagði Steinunn og bætti því við að allir leikmenn Fram séu við góða heilsu.

Flautað verður til leiks í Origo-höllinni klukkan 19.30 og verður fylgst með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert