Alfreð kveður sem þjálfari ársins

Alfreð Gíslason fagnar á hliðarlínunni.
Alfreð Gíslason fagnar á hliðarlínunni. Ljósmynd/Kiel

Alfreð Gíslason hefur verið kjörinn þjálfari ársins í þýsku 1. deildinni í handknattleik og bætir því enn einni rós í hnappagat sitt sem þjálfari Kiel sem hann kveður í sumar.

Ein umferð er eftir af deildinni þar sem Kiel er í öðru sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Flensburg, og getur Alfreð því enn kvatt með meistaratitlinum. Viðurkenningar fyrir tímabilið voru opinberaðar í dag og þar kom í ljós að Alfreð var kosinn þjálfari ársins í fjórða sinn.

Alfreð hefur þjálfað Kiel síðan 2008 en hann var einnig kjörinn árin 2009 og 2012, en einnig 2002 þegar hann þjálfaði Magdeburg.

Rasmaus Lauge Schmidt var kjörinn leikmaður ársins, en hann er á sínu síðasta tímabili með Flensburg og mun ganga í raðir Veszprém í Ungverjalandi í sumar. Hann var áður lærisveinn Alfreðs hjá Kiel.

Þá var Niklas Landin, markvörður Kiel, kjörinn markvörður ársins eins og tímabilið 2016-2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert