Halldór Jóhann rekinn frá Barein

Halldór Jóhann þjálfaði FH áður en hann fór til Bareins.
Halldór Jóhann þjálfaði FH áður en hann fór til Bareins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Samningi Halldórs Jóhanns Sigfússonar hjá bareinska handknattleikssambandinu hefur verið sagt upp. Halldór var þjálfari U21 árs og U19 ára karlalandsliða þjóðarinnar sem og aðstoðarmaður Arons Kristjánssonar hjá A-landsliðinu.   

Í viðtali við Vísi segir Halldór Jóhann ýmislegt hafa gengið á í samskiptum sínum við forráðamenn bareinska handknattleikssambandsins. Árangurinn var góður, en aðrir þættir spiluðu inn í uppsögnina. 

„Þeir voru ósáttir við að ég færi heim í frí sem var löngu búið að ákveða. Það átti að vera mánuður en þeir reyndu að skera það niður í tíu daga. Ég sagði þeim að það gengi aldrei upp. Þegar ég tók þetta að mér gerðum við samkomulag um að kæmist í fjögurra vikna frí hið minnsta til að vera með fjölskyldunni,“ sagði Halldór við Vísi. 

Uppsögnin kom Halldóri á óvart. „Þetta kom okkur Aroni gríðarlega á óvart. Ég var heima en var í klippivinnu fyrir A-landsliðið en hætti því snarlega þegar ég fékk þessi skilaboð,“ sagði hann og bætti við að sér hefði verið sagt upp með WhatsApp-skilaboðum. 

mbl.is