Valur mætir gömlu Íslendingaliði

Valsmaðurinn Dagur Sigurðsson var þjálfari og leikmaður Bregenz.
Valsmaðurinn Dagur Sigurðsson var þjálfari og leikmaður Bregenz. AFP

Valsmenn drógust í dag gegn austurríska liðinu Bregenz í Áskorendabikar karla í handknattleik en þeir hefja þar keppni í þriðju umferðinni í næsta mánuði.

Bregenz hefur talsverðar tengingar við Val því tveir gamalgrónir Valsmenn hafa þjálfað liðið. Dagur Sigurðsson var þar spilandi þjálfari á sínum tíma og Geir Sveinsson tók síðar við þjálfun liðsins.

Bregenz hefur um árabil verið eitt af bestu handboltaliðum Austurríkis en liðið hefur hins vegar farið mjög illa af stað á þessu tímabili og er næstneðst í A-deildinni þar í landi með sex ósigra í fyrstu átta umferðunum.

Fyrri leikur liðanna á að fara fram á Hlíðarenda helgina 16.-17. nóvember og sá seinni í Austurríki viku síðar.

Tvö félög sem íslenskir leikmenn leika með eru í 3. umferð keppninnar. Aron Dagur Pálsson og samherjar hans í Alingsås frá Svíþjóð drógust gegn Hurry-Up frá Hollandi og Óskar Ólafsson og samherjar hans í Drammen frá Noregi mæta Dicken frá Finnlandi.

mbl.is