Óðinn og Viktor unnu Íslendingaslag

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði eitt.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði eitt. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

GOG vann 28:25-útisigur á Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Staðan í hálfleik var 15:12 og hélt GOG forystunni út allan seinni hálfleikinn. 

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði eitt mark fyrir GOG, en Viktor Gísli Hallgrímsson kom aðeins inn í markið til að reyna við tvö vítaköst, en tókst ekki að verja. Arnar Freyr Arnarsson lék ekki með GOG. 

Árni Bragi Eyjólfsson skoraði þrjú mörk fyrir Kolding en Ólafur Gústafsson komst ekki á blað. GOG er í sjöunda sæti deildarinnar með tólf stig og Kolding í tólfta sæti með sex stig.

GOG hefur verið að gera góða hluti í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni og er liðið í öðru sæti D-riðils með níu stig eftir sjö leiki. Næsti leikur liðsins er á laugardaginn kemur gegn rússneska liðinu Medvedi á útivelli. 

mbl.is