Steinunn elskar að skora þessi mörk

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Stefán Arnarson, þjálfari Fram í Olís-deild kvenna, var virkilega sáttur með torsóttan sigur sinna kvenna í dag þegar liðið mætti í hörkuleik til Vestmannaeyja. Leiknum lauk með eins marks sigri Fram en Steinunn Björnsdóttir skoraði sigurmarkið þegar 20 sekúndur voru eftir

„Við tökum helst sigurinn út úr þessum leik, líka karakterinn sem sneri þessu við. ÍBV voru betri en við í svona 57 mínútur, en við unnum, þess vegna vorum við betri. Heilt yfir voru þær þó að spila mun betur en við,“ sagði Stefán sem var nokkuð sáttur.

Í ljósi umræðu síðustu vikna og úrslita liðanna á leiktíðinni bjuggust ekki margir við því að þessi leikur yrði spennandi, Stefán segist í raun ekki skilja þá umræðu.

„Það er alltaf í þessu, ég skil ekki þessa umræðu þegar það er talað um eitt lið eða tvö sem eru best. Það þekkist hvergi í heiminum, það koma alltaf svona leikir. Við erum með frábæran mannskap en við berum mikla virðingu fyrir öðrum liðum, eins og ÍBV sýndi okkur í dag eru þær með hörkulið. Ég er bara virkilega ánægður að fara með tvö stig héðan í dag.“

„Við vorum að reyna að halda í trúna, við vitum að við erum með gott varnarlið. Í fyrri hálfleik klikkuðum við á mikið af dauðafærum, markvörður ÍBV var frábær. Vörn og markvarsla okkar var ekki góð, flotið var ólíkt okkur og við vorum of hægar í þessum leik. Við vorum ólíkar okkur og þess vegna er gott að vinna.“

ÍBV keyrði hraða miðju á Fram-liðið og hraðaupphlaup á fyrsta tempói, annars reyndu þær að róa leikinn alveg niður í göngubolta.

„Þetta gera öll lið á móti Fram, greinilega mikil virðing borin fyrir Fram-liðinu. Liðin vita það að ef þau eiga séns á að keyra þá keyra þau, annars verða þau að róa leikinn þar sem við spilum hratt. Mér finnst þetta vera hrós á Fram-liðið en ÍBV gerði þetta mjög vel.“

Var það reynslan í Fram-liðinu sem gerði það að verkum að liðið vann leikinn? „Við erum með frábæran hóp og gott lið og hugsanlega skildi það á milli. ÍBV er samt með Sunnu og Ester sem eru frábærir leikmenn, Ásta var mjög heit og þær eru með frábæran markvörð.“

Hvað setti Stefán upp fyrir lokasóknina? „Við ætluðum að láta Karen í hornið og fá árás þar, við hefðum getað gert það aðeins betur en við fengum eiginlega gefins mark þar,“ sagði Stefán en Steinunn galopnaðist á línunni og náði Hildur Þorgeirsdóttir að halda góðri ró og finna hana.

„Hildur elskar að gefa á Steinunni og Steinunn elskar að skora þessi mörk, þannig þetta var góður endir fyrir okkur. Við ætluðum að spila aðeins lengur í sókninni en þetta fór aðeins úrskeiðis, við stóðum vörnina mjög vel síðustu fimmtán mínúturnar og spiluðum frábærlega.“

Stefán segir að lokum að hann sé mjög vongóður á framhaldið. „Ég er bjartsýnn á þetta, við erum með mjög góðan hóp og ætlum okkur að vinna eitthvað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert