Hefði þegið stigið fyrirfram

Halldór Jóhann Sigfússon ræðir við leikmenn Fram.
Halldór Jóhann Sigfússon ræðir við leikmenn Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldór Jóhann Sigfússon, nýráðinn þjálfari Framara, var ekki sáttur með stigið sem hans lið vann sér inn í Eyjum í dag. Fyrsti leikur Halldórs með Framliðið var í síðustu umferð gegn Völsurum en þar biðu Framarar afhroð.

„Fyrirfram hefði ég verið gríðarlega sáttur með það, þegar við vorum á leiðinni með Herjólfi hérna í morgun þá var ég einmitt að hugsa þetta. Ég hefði alltaf verið sáttur með það fyrirfram en miðað við það hvernig leikurinn þróaðist og hvernig þetta er í lokin þá er ég gríðarlega svekktur. Ég er mikill keppnismaður og vil alltaf vinna en mér fannst við bara eiga það skilið í dag að vinna,“ sagði Halldór en hann var gríðarlega ósáttur með atvik sem átti sér stað undir lok leiksins. Þar var boltinn dæmdur af Þorgrími Smára Ólafssyni og fannst Halldóri vera brotið á honum.

„Mér fannst þetta bara vera fríkast, það hefði enginn sagt neitt í húsinu ef hann hefði flautað fríkast, í fyrsta lagi þá reynir Elliði að fiska ruðning, sem er í rauninni tvær mínútur í dag, síðan setur hann fótinn fyrir hann og hann dettur. Hann dettur með boltann í höndunum og fær dæmt á sig tvígrip. Það hefði enginn sagt neitt ef það hefði bara verið fríakast, þá hefði leikurinn fjarað út, í staðinn fáum við á okkur hraðaupphlaup á síðustu sjö sekúndunum, þeir klára það og fá jafntefli,“ sagði Halldór og nefndi síðan að hann hefði verið ósáttur við nokkur atvik í viðbót á síðustu tíu mínútunum.

„Ég er mjög ósáttur við mörg atvik á síðustu tíu mínútunum hjá dómurunum, ég verð bara að segja alveg eins og er. Eyjamenn kvörtuðu fyrr í vetur yfir dómgæslu, mér finnst þeir aldeilis hafa fengið það til baka í dag,“ sagði Halldór en lítið af tveggja mínútna brottvísunum litu dagsins ljós þangað til að þær komu á færibandi um miðbik síðari hálfleiks. Þar komu fjórar slíkar á undir tveimur mínútum.

„Ég vissi það að þegar þeir fengu tvisvar tvær mínútur hérna fyrir tuð og hrindingu inni á línunni, þegar boltinn var víðs fjarri, þá vissi ég alveg að við myndum fara útaf í tvær mínútur eða fjórar mínútur fyrir eitthvað smávægilegt. Önnur þeirra var fyrir eitthvað mjög smávægilegt, svona er þetta að koma út í eyju og spila, það er þrýstingur frá fólkinu í stúkunni. Það er auðvitað bara gott og blessað en mér fannst vera of mörg atriði síðustu tíu mínúturnar sem orka tvímælis og auðvitað þarf maður að skoða það eftir á og ég þarf að éta það upp í mig ef það er allt rangt.“

Framarar komust þremur mörkum yfir þegar það voru tæpar fimm mínútur eftir og ná ekki að skora eftir það, en hvað setti Halldór upp í lokasókn sinna manna með 37 sekúndur eftir?

„Við setjum upp ákveðið kerfi þar sem Kiddi á að koma út fyrir, við ætluðum að sjá hvort þeir myndu koma í maður á mann, við ætluðum líka að passa að vera ekki að drippla í kringum þá. Við vildum ekki að rétthentur maður færi inn á miðjuna í einhverju drippli en við náðum að þrýsta þeim niður og fáum fríkast. Þá ætluðum við í ákveðið kerfi, upp frá því kemur klipping og Þorgrímur sækir inn á miðju en þá kemur Elliði og fiskar dómarana í ranga ákvörðun, það er bara þannig.“

Halldór endurheimti Lárus Helga Ólafsson inn í liðið fyrir þennan leik en hann var ekki með gegn Völsurum í síðasta leik, Lárus var frábær í dag.

„Lalli var frábær í dag, það er frábært að fá hann til baka. Hann er ekki búinn að æfa með liðinu síðan ég tók við en hann er okkur gríðarlega mikilvægur. Við vitum að við getum spilað sterka vörn með góðan markmann á bakvið, vörnin var frábær og höfum við unnið mikið í okkar varnarleik síðan ég tók við. Margir halda kannski að við höfum byrjað á vitlausum enda en það er þannig að upp frá góðri vörn kemur allt. Við erum búnir að ná að spila í fyrri hálfeik á móti Val eða allavega fyrstu tuttugu og síðan í öllum leiknum í dag mjög góða 6-0 vörn. Ég er ánægður með það en það er gott fyrir strákana að vera svekkta í dag að hafa náð í stig, ég hefði verið rosalega ánægður fyrir þá ef við hefðum fengið að vinna þennan leik því við áttum það skilið. Fyrirfram hefði ég tekið stigið sem gæti reynst dýrmætt í lokin.“

Hvað finnst Halldóri um að vera kominn aftur inn í deildina, eftir að ballið hafi klárast nokkuð snemma í Barein?

„Mér finnst frábært að vera kominn aftur en ég ætlaði að vera rólegur í vetur og var búinn að vera að skoða ákveðna hluti úti og það voru ýmsir hlutir sem komu upp í hendurnar á mér þar. Það er svo bara þannig að þegar Framararnir komu til mín eitt kvöldið gat ég ekki skorast undan því sem fyrrverandi fyrirliði liðsins til fimm ára, fyrrverandi þjálfari kvennaliðsins og með börnin mín í félaginu. Þar sem ég bý í hverfinu var erfitt að ganga frá þeirri bón, þegar menn veru búnir að setja pressu á mig þá sá ég líka að verkefnið var spennandi þó það sé á öðrum enda en ég er búinn að vera undanfarin ár. Mér fannst þetta spennandi að takast á við nýja baráttu,“ sagði Halldór en hann sagði að þetta hefði gerst mjög hratt og að konunni hans hefði litist vel á verkefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert