Hópurinn náði fullkomlega saman

Guðjón Valur Sigurðsson sækir að marki Portúgala í leiknum í …
Guðjón Valur Sigurðsson sækir að marki Portúgala í leiknum í dag. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Við vorum klárir frá fyrstu mínútu,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við RÚV eftir 28:25-sigur liðsins gegn Portúgal í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í dag.

„Við hittum í raun bara þannig séð á fullkomna byrjun, eitthvað sem við gerðum ekki á móti Ungverjalandi og Slóveníu. Þetta er stór hópur með mismunandi einstaklinga. Einn vill láta lemja sig í gang á meðan einhver annar vill vera alveg út af fyrir sig í sínu horni. Hópurinn náði hins vegar fullkomlega saman í dag, náum snemma sex marka forskoti, og það hjálpaði okkur mikið. Það hefur verið aðeins þannig í þessu móti að það virðist vera sem svo að það sé dagsformið sem skipti mestu máli en við erum virkilega glaðir í dag og ætlum að njóta þessa sigurs áður en við förum að undirbúa okkur fyrir næsta leik.“

Íslenska liðið stóð varnarleikinn frábærlega í dag gegn sjö manna sóknarleik Portúgala sem hefur reynst öðrum liðum á mótinu erfiður viðureignar.

„Við náum góðum stoppum í vörninni, á lykilaugnablikum í leiknum, og það er eitthvað sem hægt er að byggja ofan á. Við vorum þannig séð að spila einum manni færri gegn þessum sjö manna sóknarleik. Við gerðum okkur þess vegna grein fyrir því að þeir myndu fá flott færi en munurinn á leiknum í dag og gegn Ungverjum til dæmis var sá að við héldum alltaf ró okkar. Mörkin sem við skorum líka eru seiglumörk og það duttu einhvern veginn öll smáatriði með okkur og það er akkúrat það sem við þurfum til þess að vinna leiki,“ bætti fyrirliðinn við.

mbl.is