Kannski þurfum við að fara í naflaskoðun

Guðmundur Guðmundsson kemur skilaboðum áleiðis.
Guðmundur Guðmundsson kemur skilaboðum áleiðis. AFP

„Þetta var ekki okkar dagur,“ viðurkenndi Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is eftir 25:32-tap fyrir Svíþjóð í lokaleik Íslands á EM karla í handbolta í kvöld í leik þar sem íslenska liðið sá aldrei til sólar. 

Úrslitin úr öðrum leikjum voru Íslandi í óhag og var víst fyrir leik að ekkert væri undir hjá íslenska liðinu. 

Elvar Örn Jónsson í slagnum í dag.
Elvar Örn Jónsson í slagnum í dag. AFP

„Það voru ákveðin vonbrigði hvernig úrslit dagsins voru. Leikmenn voru staðráðnir í að gera það sem þeir gátu til að ná hagstæðum úrslitum en það gekk ekki eftir. Við byrjuðum ekki vel og vörnin var ekki góð. Við fórum illa að ráði okkar í sókninni og við hittum ekki markið níu sinnum yfir leikinn. Það voru þreytumerki á liðinu. Það sást á varnarleiknum og sóknarleiknum,“ sagði Guðmundur, en hann sá eitthvað jákvætt við leikinn. 

Vorum að fjárfesta til framtíðar

„Það sem er jákvætt við þetta er að við ákváðum að fjárfesta í ákveðnum mönnum og gefa leikmönnum tækifæri. Við vorum með kornungan miðjumann og gáfum Sveini Jóhannssyni tækifæri í vörn og sókn. Við vorum líka að fjárfesta til framtíðar.“

Guðmundur ræddi svo mótið í heild sinni, sem var vægast sagt sveiflukennt. Ísland vann stórkostlegan sigur á Danmörku í fyrsta leik og stórsigur á Rússlandi í næsta leik. Þá vann Ísland einnig góðan sigur á Portúgal sem leikur um fimmta sætið. Ísland fékk hins vegar skell í tveimur síðustu leikjunum. 

Sigvaldi Björn Guðjónsson skýtur að marki Svía í dag.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skýtur að marki Svía í dag. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Leikur okkar í þessari keppni var sveiflukenndur. Við byrjuðum afskaplega vel með stórkostlegum sigri á heims- og ólympíumeisturum Dana. Við vinnum svo Rússa á gríðarlega sannfærandi hátt en það sem situr í okkur er síðari hálfleikurinn á móti Ungverjum. Við fórum illa að ráði okkar og töpuðum allt of stórt. Sá leikur kostaði okkur mjög mikið á endanum. Það var dýrkeypt að fara ekki með stig í milliriðla. Það var sorglegt eftir fimm frábæra hálfleiki af sex í riðlinum.

Síðustu tveir leikirnir vonbrigði

Við töpuðum fyrir Slóveníu í fyrsta leik í milliriðli. Það er hægt að tapa á móti Slóveníu og það er frábært lið með meiri reynslu en við. Við reisum okkur við og komum til baka á móti Portúgal á eftirminnilegan hátt. Það var frábær leikur af okkar hálfu á móti liði sem hefur spilað frábærlega á þessu móti. Síðustu tveir leikirnir voru hins vegar vonbrigði.“

Íslensku leikmennirnir ganga svekktir af velli.
Íslensku leikmennirnir ganga svekktir af velli. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Hann segir að íslenskir handboltamenn þurfi að skoða hvað sé hægt að gera betur, því íslenska liðið virkaði hreinlega sprungið á köflum á mótinu. 

Leikmenn Íslands orkulausir

„Mér fannst eins og menn væru hálforkulausir. Það er nokkuð sem við þurfum að skoða í samhengi. Ísland er búið að fara í milliriðil á tveimur síðustu stórmótum. Það þýðir að leikirnir verða sjö eða átta. Það breytir stöðunni algjörlega. Líkamlegt atgervi þarf að vera alveg upp á 10 til að ráða við þetta álag. Kannski þurfum við að fara í naflaskoðun hvað þetta varðar. 

Ýmir Örn Gíslason sækir að sænska markinu í kvöld.
Ýmir Örn Gíslason sækir að sænska markinu í kvöld. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Við erum með ungt lið. Við erum með leikmenn sem eru ennþá að spila á Íslandi og leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku. Þeir eiga eftir að þroskast, styrkjast og verða betri. Við erum að byggja upp og við þurfum tíma til þess. Þetta gekk kannski á köflum betur en margan hefði grunað á þessu móti. Þess vegna megum við ekki heldur fara fram úr okkur.“

Þá var Guðmundur ánægður með innkomu Sveins Jóhannssonar, sem spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti. „Mér fannst hann standa sig frábærlega vel. Hann kom tilbúinn inn í þetta. Hann er mjög vel þjálfaður og er framtíðarmaður,“ sagði Guðmundur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina