Væri frekja að vera óánægður með 39 mörk

Ásbjörn Friðriksson skoraði sjö mörk í kvöld.
Ásbjörn Friðriksson skoraði sjö mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir tíu mínútna leik fannst mér við vera með þá,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður og aðstoðarþjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir afar öruggan 39:28-sigur á ÍR í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Staðan var 5:5 eftir tíu mínútna leik en þá tók FH völdin og var sigurinn aldrei í hættu. 

„Það var jafnt eftir tíu mínútur en svo fannst mér við eiga hrikalega auðvelt með að skora í fyrri hálfleik. Við vorum að spila góða sókn, góða vörn og við keyrðum vel á þá. Við ætluðum að byrja seinni hálfleikinn af krafti og þar með loka þessum leik,“ sagði Ásbjörn, sem viðurkenndi að það var pínulítið svekkjandi að skora ekki 40 mörk. 

„Við klúðruðum tveimur góðum færum í lokin til að ná 40. Það væri frekja að vera óánægður með 39 mörk en það hefði verið gaman að sjá 40 á töflunni, það gerist ekki oft. Sóknarleikurinn gekk frábærlega í dag og smurt, alveg sama hver kom inn á. Það skiptir máli.“ 

Gísli Jörgen Gíslason skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH í leiknum með neglu langt fyrir utan. Gísli er Ísfirðingur sem hefur æft með FH í vetur. 

„Þetta er öflugur strákur frá Ísafirði. Hann er búinn að æfa með okkur í vetur og hann sýndi að  hann getur hoppað þrjá metra í loftið og skotið að marki. Hann gerði það og þetta var gullfallegt mark hjá drengnum.“

FH hefur gengið betur eftir áramót og er liðið nú aðeins einu stigi á eftir toppliði Hauka. 

„Við vorum á fínni siglingu en svo töpum við á móti ÍBV og Val með einu marki. Við misstum Ágúst Birgis út en núna erum við búnir að smyrja Jón Bjarna vel inn í þetta á línunni með honum. Við vorum í fínu standi fyrir áramót en við þurftum að komast í enn betra form.

Við höfum verið sterkari í vörninni og þar af leiðandi fengið betri markvörslu. Strákarnir eiga skilið að vera duglegir í desember og janúar. Við verðum að halda áfram á þessari braut ef við ætlum okkur einhverja hluti,“ sagði Ásbjörn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert