Þjóðverjinn hæstánægður á Íslandi

Phil Döhler í leik með FH.
Phil Döhler í leik með FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þýski handknattleiksmarkvörðurinn Phil Döhler gerði tveggja ára samning við FH fyrir síðustu leiktíð er hann kom frá þýska stórliðinu Magdeburg. Átti Döhler gott tímabil í Hafnarfirðinum og hefur frammistaða hans vakið athygli í heimalandinu. 

Var Döhler í viðtali við þýska miðilinn Handball World í gær þar sem hann ræddi um Íslandsdvölina til þessa, en hann ákvað að vera áfram á Íslandi í stað þess að fara heim til Þýskalands þegar kórónuveiran herjaði á Evrópu. 

„Ég vildi alltaf spila erlendis en vegna fjölskylduaðstæðna var það ekki möguleiki fyrr en núna. Ég tók tilboði Magdeburg um að verða þriðji markvörður liðsins. Síðasta sumar fór ég svo til Íslands og æfði með þremur liðum og ákvað að lokum að semja við FH.

Phil Döhler stendur vaktina í markinu hjá FH.
Phil Döhler stendur vaktina í markinu hjá FH. mbl.is/Árni Sæberg

Félagið hefur alið af sér góða leikmenn sem spila í Evrópu eins og Aron Pálmarsson, Loga Geirsson og Ragnar Jóhannsson,“ sagði Döhler, en hann er skólaliði í Áslandsskóla í Hafnarfirði meðfram því að spila handbolta. 

„Ég byrjaði ungur að þjálfa yngri flokka og ég naut þess mjög að vinna með börnum. Þess vegna vildi ég vinna meðfram handboltanum. Ég vinn með krökkum í fyrsta og öðrum bekk og það kemur mér á óvart hvað þau tala góða ensku. Ég gæti lifað á handboltanum einum saman, en ég vildi vinna með,“ sagði Þjóðverjinn. Hann er afar hrifinn af landi og þjóð. 

„Mér líkar mjög, mjög vel við Ísland. Landið er fallegt og ég hef getað ferðast um landið. Mér líkar mjög vel við menninguna og andrúmsloftið. Það kom mér á óvart hversu vinalegir allir eru. Íslenskan mín er allt í lagi og ég er ánægður að fá að vinna með börnum og ég ætla í skóla í sumar að læra betri íslensku,“ sagði markvörðurinn. 

Viðtalið í heild sinni má sjá hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert