„Urðum litlir í okkur stóran hluta leiksins“

Halldór Jóhann Sigfússon ræðir við sína menn.
Halldór Jóhann Sigfússon ræðir við sína menn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum frábærir fyrstu sjö mínúturnar og síðustu sjö mínúturnar. Það sem gerðist þar á milli vorum við bara svolítið ólíkir sjálfum okkur. En þetta var unnið stig og frábær karakter í lokin,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, sem gerði 24:24 jafntefli við KA á heimavelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Með frammistöðunni gegn Stjörnunni í síðustu umferð þá hefðum við klárað þennan leik í kvöld vel. Við vorum bara langt frá okkar getu í 40 mínútur og það er ég ósáttur við. Við fáum reyndar bara á okkur 24 mörk í leiknum með ekkert sérstaka markvörslu lengi vel. Vilius [Rasimas] varði vel í lokin og Arnór [Hákonarson] kom inn á lokakaflanum og gaf okkur góða og einfalda hluti í sókninni og gerði vel í vörninni. Svo vorum við áræðnir í átt að markinu þegar við þurftum þess á lokakaflanum en fram að því var þetta ekki nógu gott. Það eru margir glórulausir tapaðir boltar og síðustu tuttugu mínúturnar í fyrri hálfleik þá hlaupum við hvorki upp né niður völlinn,“ sagði Halldór Jóhann ennfremur.

„Við erum mjög sáttir við að hafa unnið þetta stig og það gæti reynst okkur dýrmætt í lokin. En við vildum vinna hérna á heimavelli, við eigum að vinna alla leiki hér. Ég er ósáttur við hvað við urðum litlir í okkur stóran hluta leiksins. Það er eitthvað sem við þjálfararnir verðum að vinna með næstu vikur,“ sagði Halldór Jóhann og nefndi til dæmis sóknarnýtingu liðsins.

„Ég ætla ekki að taka það af markverði KA að hann stóð sig vel. En við vorum líka að skjóta í hann í dauðafærum og skjóta fyrstatempó skot. Ég veit ekki hversu oft við ætluðum að klobba hann og hann stóð kyrr og við skutum í fæturna á honum. Það eru mörg dauðafæri í mínu minni þar sem mínir menn áttu að gera miklu betur og kannski var undirbúningurinn fyrir leikinn ekki nógu góður, hvernig við ætluðum að koma inn í hann. En þetta er frábært stig, við tökum það miðað við hvernig leikurinn þróaðist,“ sagði Selfossþjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert