HSÍ fær undanþágu frá EHF

Íslenska karlalandsliðið mætir Portúgal og Ísrael á Ásvöllum.
Íslenska karlalandsliðið mætir Portúgal og Ísrael á Ásvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Næstu landsleikir íslenska karlalandsliðsins í handknattleik verða spilaðir á Ásvöllum í Hafnarfirði en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem HSÍ sendi frá sér í dag.

Íslenska liðið hefur hingað til leikið landsleiki sína í Laugardalshöll en í síðustu viku sprakk lögn í höllinni sem varð til þess að vatn flæddi um öll gólf. Höllin er því ónothæf næstu mánuðina þar sem skipta þarf um gólf í henni.

HSÍ sótti um undanþágu til evrópska handknattleikssambandsins, EHF, um að næstu leikir landsliðsins yrðu spilaðir á Ásvöllum en sú beiðni var samþykkt í dag.

„A-landslið kvenna hefur spilað sína síðustu þrjá heimaleiki á Ásvöllum og mun A-landslið karla færa sína leiki þangað og má búast við því að hið minnsta heimaleikir strákana okkar í janúar og mars verði spilaðir í Hafnarfirði,“ segir í tilkynningu frá HSÍ.

„HSÍ vill þakka Haukum fyrir að bregðast vel við beiðni okkar um að leikir landsliðsins færist á Ásvelli,“ segir ennfremur í fréttatilkynningunni en Ísland mætir Portúgal í undankeppni EM 2022 10. janúar og svo Ísrael í sömu keppni í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert