Alexander í stuði í Ungverjalandi

Alexander Petersson.
Alexander Petersson. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Alexander Petersson, landsliðsmaður í handknattleik, var næstmarkahæstur hjá Rhein-Neckar Löwen þegar liðið vann Tatabánya 32:26 í Ungverjalandi í kvöld þegar liðin mættust í EHF bikarnum. 

Alexander skoraði 6 mörk og gaf eina stoðsendingu fyrir Löwen en Alexander er nýfarinn að leika á ný eftir meiðsli sem héldu honum frá keppni um stund. Ýmir Örn Gíslason lék í vörninni hjá Löwen en skoraði ekki. 

Liðin leika í D-riðli keppninnar og hefur Löwen farið afar vel af stað því liðið hefur unnið fyrstu þrjá leikina. Ungverska liðið hefur tapað fyrstu tveimur.

Íslendingaliðin Kadetten og GOG eru einnig í riðlinum. Kadetten sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar er með 3 stig og GOG sem Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með er með 2 stig. 

mbl.is